Jóhann Helgi spilaði sinn 200. leik fyrir Þór

Mynd: Haraldur Ingólfsson

Framherjinn Jóhann Helgi Hannesson spilaði sinn 200. leik á Íslandsmóti fyrir Þór í gær þegar liðið mætti Þrótti á Þórsvelli. Þór sigraði leikinn 2-0 í baráttunni um sæti í efstu deild. Jóhann hefur einnig spilað 4 evrópuleiki fyrir liðið og 101 leik í vetrar- og undirbúningsmótum. Auk þess á Jóhann Helgi einn leik að baki fyrir U21 árs landslið Íslands.

Jóhann Helgi er markahæsti leikmaður Þórs í sumar með 6 mörk í 13 leikjum. Jóhann Helgi átti stóran þátt í fyrra marki leiksins þegar hann komst fyrir útspark frá markmanni Þróttar, boltinn datt fyrir Aron Kristófer Lárusson sem skilaði honum í autt markið.

Jóhann var heiðraður fyrir leikinn í gær. Fyrsti leikur hans fyrir Þór á Íslandsmóti var gegn Leikni Reykjavík 2. júlí árið 2007. Þá kom hann inn fyrir Jóhann Halldór Traustason á 46. mínútu. Hann skoraði sitt fyrsta mark í 1-1 jafntefli gegn Haukum sumarið 2008. Hann var orðinn lykilmaður í Þórsliðinu árið 2010 þegar liðið tryggði sig upp í Pepsi deildina. Þá skoraði Jóhann 8 mörk í 19 leikjum.

Samtals hefur Jóhann Helgi skorað 61 mark í sínum 200 leikjum fyrir Þór.

VG

UMMÆLI