Jóhann Kristinn snýr aftur sem aðalþjálfari Þór/KAMynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net.

Jóhann Kristinn snýr aftur sem aðalþjálfari Þór/KA

Stjórn Þórs/KA hefur ráðið Jóhann Kristin Gunnarsson sem aðalþjálfara Þórs/KA næstu þrjú árin. Ágústa Kristinsdóttir verður yfirþjálfari yngri flokka og Hannes Bjarni Hannesson sjúkra- og styrktarþjálfari. Þetta kemur fram á thorka.is.

„Jóhann Kristinn er Þór/KA og Akureyringum að góðu kunnur, en hann tók við þjálfun liðsins haustið 2011 og stýrði liðinu til Íslandsmeistaratitils 2012, á sínu fyrsta tímabili. Þá fór hann með liðið í Evrópukeppni árið 2013 ásamt því að komast í bikarúrslitaleikinn. Öll fimm árin sem Jói þjálfaði Þór/KA varð liðið í einu af fjórum efstu sætum deildarinnar. Hann fór einnig með Þór/KA í undanúrslit Lengjubikarsins 2013, 2014, 2015 og 2016. Þá þjálfaði hann lið Þórs/KA Hamranna í 2. flokki 2014-2016 og vann bikarmeistaratitil og silfurverðlaun 2015 og Íslandsmeistaratitil 2016,“ segir í tilkynningunni á vef Þór/KA

Jóhann kveðst spenntur fyrir verkefninu. „Ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur í Þór/KA og það er mikill heiður að fá að taka við þessu starfi á ný. Ég finn fyrir miklum krafti og metnaði hjá stjórninni og líst vel á þeirra hugmyndir og stefnu. Ég veit að efniviðurinn er mikill hérna og það býr heilmikið í liðinu. Það er bara spenningur að byrja og hjálpa liðinu að vaxa og dafna. Það er engin spurning að það er skýr stefna Þór/KA að vera eitt af sterkustu liðum landsins. Ég er alveg sannfærður um að framtíðin er björt hjá liðinu og leikmönnum þess,“ sagði Jói í samtali við heimasíðu Þór/KA.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, lýsir yfir mikilli ánægju með að fá Jóa aftur til okkar.

„Við í stjórninni erum rosalega ánægð með þessa ráðningu. Jói er með mikla reynslu af þjálfun og gerði Þór/KA meðal annars að Íslandsmeisturum 2012, á sínu fyrsta tímabili með liðið. Hann hefur mikinn metnað fyrir Þór/KA og veit hvað þarf til að ná árangri. Við teljum að hann sé rétti þjálfarinn fyrir okkur og hann mun klárlega bæta okkur sem lið og sem einstaklinga. Við vitum hvað býr í stelpunum okkar og við erum fullviss um að Jói mun ná því besta fram í leikmönnum og liðinu öllu,“ sagði Dóra Sif Sigtryggsdóttir í samtali við heimasíðu Þór/KA.

Nánari umfjöllun má finna á vef Þór/KA.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó