Múlaberg

Júlíus á leið í bandaríska háskólaboltann

Júlíus á leið í bandaríska háskólaboltann

Körfuboltamaðurinn Júlíus Orri Ágústsson mun spila körfubolta í New Jersey í Bandaríkjunum á næsta tímabili. Júlíus sem hefur verið lykilmaður í liði Þórs undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur, mun spila leika með liði Caldwell University Cougars í bandaríska háskólaboltanum. Þetta kemur fram á karfan.is.

Júlíus er 19 ára gamall og hefur leikið með Þór Akureyri allan sinn feril. Hann á 82 leiki að baki fyrir Þórsara í meistaraflokki en hann lék sinn fyrsta leik með liðinu aðeins 14 ára gamall. Lið Cougars er í 2. deild háskólaboltans og leikur í Central Atlantic hluta deildarinnar.

Júlíus þykir gífurlega efnilegur en auk þess að hafa verið mikilvægur í liði Þórs hefur hann einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands.

Júlíus ræddi skiptin við heimasíðu Þórs í gær en hann segist vera mjög spenntur. „Þetta leggst bara mjög vel í mig, ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri og held ég hafi gott að því að breyta til og skipta um umhverfi eftir að hafa verið lengi með Þór,“ segir Júlíus á thorsport.is.

„Júlíusar verður að sjálfsögðu sárt saknað og Íþróttafélagið Þór óskar honum velfarnaðar í komandi verkefni. Júlíus verður án efa frábær sendiherra Þórs í New Jersey og á eftir að gera okkur öll afar stolt,“ segir á vef Þórs.

Sambíó

UMMÆLI