KA kjöldregið af Þór í úrslitaleik

Ármann Pétur hlóð í þrennu í kvöld.

Inkasso-deildarlið Þórs er Kjarnafæðismeistari 2017 eftir að hafa kjöldregið Pepsi-deildarlið KA að viðstöddu fjölmenni í Boganum í kvöld.

Eins og jafnan þegar þessir erkifjendur mætast var hart barist og strax á 25.mínútu fékk nýjasti liðsmaður KA, Steinþór Freyr Þorsteinsson, beint rautt spjald fyrir tæklingu á Orra Sigurjónssyni.

Í kjölfarið tóku Þórsarar öll völd á vellinum og kom Ármann Pétur Ævarsson þeim í 1-0 eftir hálftíma leik. Ármann Pétur var aftur á ferðinni skömmu fyrir leikhlé og tvöfaldaði forystuna.

Þórsarar héldu áfram að herja á mark KA í síðari hálfleik og skoraði Aron Kristófer Lárusson þriðja markið með skoti úr aukaspyrnu á 47.mínútu. Gunnar Örvar var næstur á markalistann þrem mínútum síðar. Ármann Pétur fullkomnaði svo þrennu sína og staðan eftir 55 mínútur 5-0 fyrir Þór.

Archange Nkumu klóraði í bakkann fyrir KA á 74.mínútu. Skömmu síðar fékk Aleksandar Trninic reisupassann þrátt fyrir að honum hefði verið skipt af velli í leikhléi en hann lét bekkjarsetuna ekki stöðva sig í að fá rautt spjald fyrir óspektir, tæpum tíu mínútum fyrir leikslok.

Tómas Örn Arnarson rak svo síðasta naglann í kistu KA-manna í uppbótartíma og 6-1 sigur Þórs staðreynd. Ármann Pétur Ævarsson var valinn maður leiksins af mótshöldurum.

Þór 6-1 KA
1-0 Ármann Pétur Ævarsson (´30)
2-0 Ármann Pétur Ævarsson (´45)
3-0 Aron Kristófer Lárusson (´47)
4-0 Gunnar Örvar Stefánsson (´51)
5-0 Ármann Pétur Ævarsson (´55)
5-1 Archange Nkumu (´74)
6-1 Tómas Örn Arnarson (´90)
Rauð spjöld: Steinþór Freyr Þorsteinsson, KA (´25) og Aleksandar Trninic, KA (´82)

Sambíó

UMMÆLI