KA menn heimsækja Ólafsvík í dag

Í dag mæta KA menn til Ólafsvíkur þar sem bíður þeirra leikur gegn Víkingum frá Ólafsvík. Leikurinn er í 6. umferð Pepsi deildar karla og hefst klukkan 17:00. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport líkt en allir leikir KA í Pepsi deildinni hingað til hafa verið sýndir á Stöð 2 Sport.

KA menn eru nýliðar í Pepsi deildinni í sumar en hafa farið vel af stað. KA menn sitja í 5. sæti deildarinnar með 8 stig en geta komist upp fyrir FH og Grindavík í 3. sætið með sigri í dag. Síðustu tveir leikir liðsins í deildinni hafa verið vægast sagt svekkjandi en í báðum leikjunum, gegn Stjörnunni og Víking Reykjavík, fékk liðið á sig mark í uppbótartíma. Leikurinn gegn Stjörnunni í Garðabæ endaði 2-1 fyrir Stjörnunni og Víkingar jöfnuðu á Akureyrarvelli í blálokin síðustu helgi, 2-2.

KA menn urðu fyrir áfalli fyrir leikinn í dag en varnarmaðurinn Guðmann Þórisson sem hefur spilað vel í vörn KA varð fyrir meiðslum á nára og verður ekki með.

Schiöthararnir, stuðningsmannasveit KA, munu fylgja liðinu til Ólafsvíkur en þeir hafa mætt á alla leiki liðsins í sumar stutt liðið.

Sambíó

UMMÆLI