KA og Akureyrarbær skrifa undir samning um uppbyggingu á félagssvæði KA

KA og Akureyrarbær skrifa undir samning um uppbyggingu á félagssvæði KA

Í dag var undirritaður samningur Akureyrarbæjar og Knattspyrnufélags Akureyrar (KA) um uppbyggingu íþróttamannvirkja á félagssvæði KA. Samningurinn er framhald af viljayfirlýsingu milli aðila sem var undirritiuð í desember 2021.

Útbúinn verður upphitaður aðalkeppnisvöllur með gervigrasi og 800 LUX flóðlýsingu og öðrum búnaði sem stenst leyfisreglugerð Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) sem byggir á viðmiðunarreglum og kröfum leyfiskerfis Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA). Austan við keppnisvöllinn rís yfirbyggð stúka fyrir allt að 1.000 manns í sæti.

Í stúkubyggingunni verður meðal annars aðstaða fyrir lyftingadeild KA og þá verður tengibygging á milli núverandi aðstöðu og þeirrar sem byggð verður. Tengibyggingin mun fjölga búningsklefum á vegum félagsins en núverandi aðstaða er fyrir löngu sprungin miðað við þann fjölda sem nýtir sér aðstöðu KA á degi hverjum. Þá mun júdódeild KA einnig verða með aðstöðu í tengibyggingunni auk skrifstofa og veislusals.

„Verklok fyrir keppnisvöllinn eru áætluð í júní 2023 en fyrir félagsaðstöðu og stúlku í árslok 2028. Frágangur á lóð félagssvæðisins teygir sig til ársins 2030. Framkvæmdirnar eru á vegum Akureyrarbæjar sem stendur straum af kostnaði við þær og teljast mannvirkin eign sveitarfélagsins að framkvæmdum loknum. KA tekur þátt í verkefninu með vinnu við ýmis verkefni sem tengjast innréttingu á efri hæð félagsaðstöðu auk kaupa á búnaði í eldhús og félagssal á sömu hæð. Áætlaður kostnaður við keppnisvöllinn, stúkumannvirkið og félags- og búningsaðstöðuna er rúmlega 2,6 milljarðar á núverandi verðlagi,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Fleiri myndir má sjá á vef KA.

Sjá samninginn hér.

UMMÆLI