NTC

KA sigraði Þrótt Nes í Mizuno deildinni

Þróttur Nes mætti til leiks án nokkurra af þeirra bestu leikmönnum vegna meiðsla. Borja Gonzalez Vicente, uppspilari liðsins, Miguel Mateo Castrillo, stigahæsti leikmaður liðsins og Valgeir Valgeirsson voru allir fjarverandi. Lið Þróttar var því byggt upp á ungum og efnilegum leikmönnum.

Þróttarar héldu vel í við KA menn í upphafi fyrstu hrinu en í stöðunni 13-11 fyrir KA skoruðu þeir 6 stig í röð. Hrinunni lauk með 25-17 sigri KA.

Þróttarar leiddu aðra hrinuna allt fram undir hana miðja en þá vöknuðu KA menn til lífsins. Hrinunni lauk með 25-20 sigri KA og þeir því komnir í væna stöðu.

Í þriðju hrinunni voru töluverðar breytingar gerðar á liðunum. Hjá KA fóru Sigþór Helgason og Ævarr Freyr Birgisson af velli og Vigfús Hjaltalín og Benedikt Rúnar Valtýsson komu þeirra í stað auk þess að Alexander Arnar Þórisson var færður af miðjunni og settur á kantinn. Hjá Þrótti var Ragnar Ingi Axelsson tekinn af velli og í hans stað kom Börkur Marinósson. Hrinan var jöfn þar til í stöðunni 6-6 en þá tóku KA menn á rás og Þróttarar sáu aldrei til sólar eftir það. KA unnu hrinuna 25-11 og leikinn því 3-0.

Stigahæsti leikmaður KA var Alexander Arnar Þórisson með 18 stig og hjá Þrótti var Atli Fannar Pétursson stigahæstur með 7 stig.

KA styrkir þar með stöðu sína á toppi deildarinnar og eru nú 4 stigum á undan HK. Þróttur Nes er í fjórða sæti, tveimur stigum á undan Aftureldingu. KA og Þróttur Nes mætast aftur á laugardaginn klukkan 14, þá á heimavelli Þróttar Nes.

Mynd og umfjöllun: KA.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó