Kaldasta sem hefur mælst svo seint í júní síðan 1978Snjór í Hlíðarfjalli Mynd: Instagram

Kaldasta sem hefur mælst svo seint í júní síðan 1978

Í nótt mældist eins stigs frost á Akureyri. Það er það kaldasta sem hefur mælst svo seint í júní frá því árið 1978 þegar frysti 23. júní. Þetta kemur fram í færslu Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, á Facebook.

„Klálega einn mesti kuldi af þessum toga í áraraðir, en samanburður vissulega erfiður þar sem mest er af köldum dögum í blábyrjun mánaðarins. Kortið frá Veðurstofunn sýnir hita í 850 hPa fletium og þykktina sem var á miðnætti norðanlands um 5210 m. Þetta er óvenjulega kaldur loftmassi yfir landinu sama hvaða sjónarhorni er beitt. Hvenær svo kalt var síðast veit ég ekki, en þykktin er áþekk og í frægu N-áhlaupi sem gerði 17. júní 1959,“ skrifar Einar á Facebook síðu sinni.

Einar var spurður að því hvort þetta væri ávísun á kalt sumar á vef mbl.is í dag en hann sagði að svo þyrfti ekkert endilega að vera.

„Í sjálfu sér ekki. Við þekkj­um sum­ar­veðrátt­una og hún er breyti­leg, það koma kafl­ar með þessu og síðan kafl­ar með hinu veðrinu. Það að sum­arið fari illa af stað er ekki vís­bend­ing um að sum­arið fari illa. Það kom tólf daga kafli þar sem var mjög hlýtt, síðan rigndi loks­ins sunn­an- og vest­an­lands og þá var kær­komið að fá bleyt­una. Síðan erum við núna í þess­ari köldu báru,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

Samkvæmt veðurspá næstu daga verður áfram heldur kalt. Hitinn fer ekki upp fyrir tíu gráður í þessari viku samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó