Prenthaus

Kaldbakur tekur við Landsbankahúsinu – Fjárfestingastarfsemi Samherja verður aðskilin kjarnastarfseminniMynd: Samherji.is

Kaldbakur tekur við Landsbankahúsinu – Fjárfestingastarfsemi Samherja verður aðskilin kjarnastarfseminni

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. tók í síðustu viku formlega við Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri. Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdastjóri Kaldbaks og stjórnarformaður Samherja hf. undirritaði kaupsamninginn en sjö tilboð bárust í húsið og var tilboð Kaldbaks hæst. Ákveðið hefur verið að gera rekstur og fjárfestingar Kaldbaks sjálfstæðan. Þetta kemur fram á vef Samherja.

Landsbankahúsið, sem tekið var í notkun árið 1954 setur mikinn og fallegan svip á Ráðhústorg. Fyrstu tillöguuppdrætti að húsinu gerði Guðjón Samúelsson en að honum látnum tók Bárður Ísleifsson við og gerði hann eftir það alla uppdrætti.

„Því er ekki að neita, þetta er söguleg stund og merkileg fyrir mig persónulega enda ber ég sterkar taugar til þessa fallega og svipsterka húss. Viðbrögð almennings við kaupunum voru almennt mjög jákvæð, eftir að viðskiptin voru kunngerð. Starfsemi Landsbankans verður áfram í hluta hússins eða þar til bankinn finnur sér annan hentugan stað. Kaldbakur flytur sína starfsemi í húsið á næstu dögum, okkar markmið er að glæða það frekara lífi. Í þeim efnum kemur ýmislegt til greina og ekki vantar að hugmyndum hefur verið komið til okkar, sem við metum mikils,“ segir Eiríkur.

„Frá því Samherji var stofnaður fyrir nærri fjörutíu árum síðan, hefur félagið eignast hluti í ýmsum félögum sem í dag teljast ekki til kjarnastarfsemi Samherja, það er að segja veiðum, fiskeldi, vinnslu og sölu afurða. Til að skerpa á áherslum í starfseminni og auka gagnsæi hefur verið ákveðið að Kaldbakur taki yfir þessar eignir og verði sjálfstætt starfandi fjárfestingafélag,“ segir á vef Samherja.

„Samkvæmt skiptingaráætlun er fullur aðskilnaður Kaldbaks við Samherja miðaður við uppgjör 30. júní 2022 og verður áætlunin að fullu komin til framkvæmda í lok þessa árs. Kaldbakur verður sterkt félag með eignarhluti í félögum bæði hér á Íslandi sem og erlendis,,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson

Sambíó

UMMÆLI