Snævarr Örn Georgsson, umhverfisverkfræðingur á Akureyri, segir að honum finnist að kattareigendur eigi að lúta sömu reglum og aðrir dýraeigendur og eigi að sinna dýrum sínum og gæta þess að þau valdi öðrum hvorki skaða né ónæði. Snævarr segir að engin dýr nema kettir fái að ganga laus í þéttbýli víðast hvar á landinu en rætt er við Snævarr á mbl.is í dag.
Ákvörðun var tekin í bæjarstjórn Akureyrar í síðustu viku um að banna lausagöngu katta í bænum frá árinu 2025. Ljóst er að skiptar skoðanir eru á ákvörðuninni en málið hefur vakið töluverða athygli um land allt. Snævarr segir að þeim sem voga sér að gera athugasemdir við lausagöngu katta eða biðji kattareigendur um að hafa gætur á gæludýrum sínum sé oft svarað yfirgangi, persónuárásum og jafnvel fúkyrðum.
„Menn vilja ekki missa þau forréttindi að geta látið ketti sína valsa um allt eftirlitslaust. Kattareigendur segja að það sé svo vont fyrir ketti að takmarka frelsi þeirra og að það sé í eðli þeirra að vera frjálsir! En ef það er svona hræðilegt fyrir kettina að setja þeim takmörk þá henta þeir bara alls ekki sem gæludýr í þéttbýli,“ segir Snævarr.
Hann segir að kannanir sýni það að meirihluti fólks vilji banna lausagöngu katta og að það komi betur og betur í ljós að hávær minnihluti vilji ekki bera ábyrgð á gæludýrum sínum.
UMMÆLI