Hluthafar eignarhaldsfélagsins Keahótela hafa sett félagið í söluferli. Þetta kemur fram í frétt Vísis í dag. Keahótel rekur alls 8 hótel um allt land, meðal annars Hótel KEA og Hótel Norðurland á Akureyri. Fimm hótelanna eru í Reykjavík og eitt í Mývatnssveit, Hótel Gígur.
Horn II, sem er framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, hefur ákveðið að selja 60% hlut sinn í félaginu sem keyptur var fyrir 3 árum. Talsmaður Horns II, Hermann Már Þórisson segir að félagið ásamt öðrum meðeigendum ætli að selja allt hlutafé keðjunnar. Hermann segir að ákvörðun um sölu hafi verið tekin í ljósi áhuga sem innlendir og erlendir fjárfestar hafa sýnt keðjunni. Aðrir hluthafar í Keahótelum eru Tröllahvönn ehf. sem á 32% hlut í félaginu og Páll L. Sigurjónsson framkvæmdastjóri Keahótela sem á 8% hlut í félaginu í gegnum Selen ehf.
Rekstur Keahótela hefur gengið vel síðustu ár og árið 2015 var hagnaður um 263 milljónir eða tvöfaldur frá árinu á undan. Veltan það ár var um 1,7 milljarður króna. Samkvæmt frétt Vísis má gróflega áætla að heildarvirði félagsins sé um 6 milljarðar króna.
UMMÆLI