Prenthaus

Kitlar að taka þátt í #pepsi17 með KA

Ívar Örn Árnason er 20 ára Akureyringur. Hann ólst upp á Brekkunni og er KA maður í húð og hár. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir KA í Inkasso deildinni árið 2015. Ívar er vinstri bakvörður sem hann segir þægilegt því hann sé örvfættur og heyrir aðeins minna með vinstra eyranu. Hann spilaði með liði KA sem komst upp í Pepsi deildina í sumar en náði ekki að klára tímabilið með liðinu vegna þess að hann ákvað að fara í Háskóla til Michigan í Bandaríkjunum og spila fótbolta þar. Ívar er 76 kg á þyngd og 183cm á hæð, tekur 100 kíló í bekkpressu og heldur með Liverpool. Kaffið spjallaði við Ívar um lífið í Bandaríkjunum og fótboltaferilinn.

Það kitlar þó svakalega að taka þátt í #pepsi17 með KA.

,,Það kitlar svakalega að taka þátt í #pepsi17 með KA.“

Ívar segist elska lífið í Bandaríkjunum, hann segist fyrst og fremst vera að ná sér í háskólagráðu en spili fótbolta með því. ,,Liðsfélagarnir eru alveg magnaðir karakterar og mjög opnir eins og allir hérna í Bandaríkjunum. Ég er til dæmis búinn að dvelja hjá einum liðsfélaga núna í rúma viku heima hjá honum í Chicago. Það er búið að vera frí útaf Þakkargjörðarhátíðinni og ég fékk að upplifa mína fyrstu Þakkargjörðarmáltíð að amerískum sið þar af leiðandi hjá þeim.“

Ívar spilar með Northern Michigan Wildcats

Ívar spilar með Northern Michigan Wildcats

Ívar spilar með NMNMCU Wildcats sem er að stíga sín fyrstu skref í háskólafótboltanum í Bandaríkjunum. ,,Það er að segja, skólinn minn var í fyrsta skipti að tefla fram fótboltaliði, þess vegna erum við flestir í liðinu busar, eða „freshmen“. Það þýddi að þetta væri nýtt fyrir okkur öllum og allir að kynnast í fyrsta skipti. Eitt af því góða við svona nýtt verkefni er að við höfðum engu að tapa. Við fórum allir inn í þetta tímabil og gerðum það saman og það skiptir öllu. Í þessu liði eru einhverjir mestu meistarar sem ég hef kynnst og það var frábært að spila með þeim.“

Ívar yfirgaf KA menn í miðri toppbaráttu Inkasso deildarinnar. Hann segir það hafa verið erfiða ákvörðun og það hafi ekki verið auðvelt að tilkynna Srdjan Tufedgzic ,eða Tufa, þjálfara KA hana.,,Ég þurfti að leggja höfuðið lengi í bleyti. Sem betur fer var ég með allt fólkið mitt á bakvið mig sem hjálpaði mér og studdi mig við ákvörðunartökuna. Ég man eftir fiðrildunum í maganum áður en ég fór á fund Tufa og segja honum frá minni lokaákvörðun. Það var virkilega erfitt en eins og ég sá stöðuna var ég að skilja við KA í betri stöðu en liðið hafði verið nokkurn tímann á síðustu 11 árum. Við vorum í 1. Sæti með töluverða forystu á 3. Sætið og leiðin greið upp.“

Ívar Örn var valinn í lið ársins.

Ívar Örn var valinn í lið ársins.

Hann segir að ákvörðun hans um að færa sig yfir til Bandaríkjanna hafi ekki einungis verið tekin út frá fótboltanum. ,,Ég er uppalinn Akureyringur og elska bæinn minn en ég var algjörlega á þeim stað að ég þurfti breytingu. Ég útskrifaðist ur Menntaskólanum og flest allir vinir mínir voru komnir suður, systir mín býr erlendis og KA var í rauninni það eina sem hélt mér heima. Ég þurfti viðsnúning og þegar mér bauðst þetta tækifæri ákvað ég að stökkva á það.“

Ívar segir þó að tvisvar sinnum hafi hann litið heim og hugsað hvað hann væri eiginlega að gera í Bandaríkjunum. ,,Það var annars vegar nágrannaslagur við vini okkar í Þorpinu, ég hefði viljað fá tækifæri til þess að tækla Óla Hrafn, og svo lokahóf KA. Þetta voru tvær veislur sem ég vildi svo að ég hefði náð að vera partur af.“

Ívar fagnar marki með Svein Helga liðsfélaga sínum

Ívar fagnar marki með Svein Helga liðsfélaga sínum

Ívar Örn var valinn í lið ársins í deild sinni í Bandaríkjunum og hefur vakið athygli annara skóla þarna úti. En hvert er framhaldið hjá honum? ,,Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Neinei, ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Ég sest niður með Tufa þegar ég kem heim í desember og við förum yfir málin. Ég er enn samningsbundinn KA en ég hef verið að vekja athygli á mér hérna vestan hafs og hef fengið boð frá stórum fótboltaskólum hérna. Þessir skólar eru virkilega spennandi og með mjög flottar aðstöður og leikmenn. Þá get ég einnig haldið áfram að sækja menntun hérna. Það kitlar þó svakalega að taka þátt í #pepsi17 með KA. Þessi ákvörðun verður tekin á næstu mánuðum og ég er bara spenntur að sjá hvað gerist.“

Sambíó

UMMÆLI