Prenthaus

Kjósum rétt fyrir Akureyri okkar allra

Kjósum rétt fyrir Akureyri okkar allra

Heimir Örn Árnason skrifar

Fyrir 8 mánuðum síðan ákvað ég að bjóða fram krafta mína fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Í kjölfarið var mér falin sú ábyrgð af flokksfélögum að vera oddviti flokksins. Síðan þá hef ég fengið að kynnast þeim krafti og samstöðu sem einkennir starf flokksins auk þess að hafa kynnst mikið af fólki sem ég get í dag stoltur kallað vini mína. 

Að lokinni kosningabaráttu tekur alvaran hinsvegar við og mörg mikilvæg verkefni sem bíða úrlausnar nýrrar bæjarstjórnar. Þó að með sönnu megi segja að staðan á Akureyri sé um margt góð og ýmislegt sem við getum verið stolt af, megum við þó ekki slá slöku við og verðum að halda áfram að byggja um öflugt samfélag þar sem allir fá tækifæri til að blómstra á sínum eigin forsendum. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn í þau verkefni sem fyrir liggja, fái hann til þess umboð kjósenda. 

Sjálfstæðisflokkurinn byggir stefnu sína á því að öflugt atvinnulíf sé forsenda framfara og að hóflegar álögur á íbúa skapi svigrúm til vaxtar. Framundan eru spennandi tímar og ef við höldum vel á spilunum og nýtum þau tækifæri sem eru við sjóndeildarhringinn getum við eflt og stækkað bæinn okkar, okkur öllum til heilla.

Í þessu samhengi er það lykilatriði að vel sé haldið utan um rekstur bæjarins og þess gætt að vanda vel til verka við alla áætlanagerð og eftirfylgni. Með því skapast festa í rekstrinum auk fyrirsjáanleika sem skiptir miklu máli í öllum rekstri.

Stefna Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum er framsýn og byggir á heildstæðri nálgun sem öll miðar að því að fjölga íbúum og atvinnutækifærum. Þannig er hægt að auka tekjur bæjarins og hraða þeirri uppbyggingu sem víða er kallað eftir.

Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er atkvæði greitt framförum og festu. Á Akureyri okkar allra skiptir það miklu máli.

Heimir Örn Árnason er oddviti Sjálfstæðisflokksins vegna komandi sveitarstjórnarkosninga þann 14. maí nk.

Sambíó

UMMÆLI