Klám, kynlíf og meira klám … náði ég ykkur?

Klám, kynlíf og meira klám … náði ég ykkur?

Jóhanna Helga Gunnlaugsdóttir skrifar 

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera opin fyrir umræðunni um kynlíf, því eins og svo margt annað í okkar eðli er það eðlilegast í heimi að stunda kynlíf og þarf ekki að vera neitt feimnismál, því jú við erum kynverur. 

Þegar talað er um kynlíf er ekki bara verið að tala um kynlíf og fjölgun mannkynsins, heldur er verið að tala um kynlíf sem part af nautn og þess að njóta. Kynlíf getur verið sjálfsfróun, sem er svo ótrúlega eðlileg og gott tækifæri til að kynnast líkamanum sínum, hvað maður fílar og hvað maður fílar ekki. Kynlíf getur líka verið milli fólks, en þá er mikilvægt að hægt sé að ræða saman og að báðir/allir aðilarnir séu á sömu blaðsíðu þegar kemur að kynlífi, væntingum og þrá. Gagnkvæm virðing er virkilega mikilvæg, að mörk séu skýr hjá okkur sjálfum svo hægt sé að setja mörk við aðra þegar þar að kemur. Kynlíf ætti að vera skemmtilegt og snýst um að njóta, prófa sig áfram og auðvitað hafa gaman!

Kynheilbrigði er ekki bara um kynlíf heldur líka um frjósemisheilbrigði einstaklinga. Einnig tengist það jákvæðri sjálfsmynd, góðri líkamsímynd, að geta sett mörk, gagnkvæmri virðingu, jafnrétti, góðu sjálfsmati og svo mörgu fleira. Foreldrar eru þau fyrstu sem hjálpa okkur að öðlast jákvæða sjálfsmynd, það er í þeirra verkahring að hjálpa okkur að læra að setja mörk og bera virðingu fyrir  okkur sjálfum. Eftir því sem við eldumst förum við að spegla sjálfsvirðinguna okkar í vinum, umhverfinu og förum oft að bera okkur saman við náungann.

Með því að vera meðvituð og upplýst er hægt að koma í veg fyrir margvíslegar neikvæðar afleiðingar í kynlífi eins og þungunarrof, ótímabærar þunganir, kynsjúkdóma, eftirsjá, ofbeldi í kynlífi og nánum samböndum. Því er fræðsla um kynlíf og kynheilbrigði ótrúlega mikilvæg frá því að við erum börn og fram eftir öllum uppvaxtarárunum. Umræða um jákvæða þætti kynlífs, eins og hvað sé eðlilegt/óeðlilegt, gott/vont, rétt/rangt og hvað ber að varast og hvernig, eru þættir sem foreldrar, skólar og samfélagið ættu að leggja ríka áherslu á. 

Klám og klámvæðing er ekki alslæm, en það getur haft áhrif á væntingar til kynlífs og jafnvel sett pressu og ýtt undir neikvæðar tilfinningar í kynlífi þar sem klám á það til að vera virkilega ýkt dæmi um kynlíf, þar sem  kynlífssenurnar eru oft ekki í samlíkingu við kynlíf sem við stundum sjálf. Einnig getur klám haft virkilega neikvæð áhrif á líkamsvirðingu hjá fólki. Konur í klámi eru yfirleitt með hinn „fullkomna“ líkama, stóra rassa, stór og hin „fullkomnu“ brjóst og karlar oft mjög skornir, „fit“ og typpin oft vel yfir venjulegri meðalstærð. Þar af leiðandi getur klám valdið ansi brenglaðri mynd hjá fólki um hvernig standardinn sé, sem getur haft neikvæð áhrif í för með sér. 

Við erum öll með misjafna líkama. Grannir, feitir, langir, stuttir, lítil brjóst, stór brjóst, lítil typpi, stór typpi. Píkur eru allskonar, skapabarmar mismunandi, stórir rassar, litlir rassar. Fólk getur verið með appelsínuhúð, slit, mikil líkamshár, engin líkamshár og allt þar á milli. Líkamsbygging og líkamsgerð er allskonar. Ekkert af okkur er fullkomið og það er það sem gerir okkur öll svo frábær. Að geta elskað líkamann sinn eins og hann er með öllum sínum kostum og göllum er svo mikið frelsi. Kynlífið verður svo miklu betra þegar okkur líður vel í eigin skinni og við erum ánægð með eigin líkama.

Sem betur fer hefur umræðan um allt sem viðkemur kynlífi og kynheilbrigði orðið miklu minna tabú heldur en var hér áður fyrr og þar má líka nefna það sem við kemur jafnrétti og fjölbreytileikanum. Jafnrétti er ekki bara jafnrétti kynjanna þó að við eigum talsvert í land hvað það varðar en þó erum við komin mjög langt miðað við önnur lönd. Jafnrétti snýst líka um að fagna fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð eins og t.d. jafnrétti samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks, fólks sem skilgreinir sig ekki eftir kyni, þau sem eru „A-sexual“ og ég gæti lengi talið áfram. Með jafnrétti er átt við að fólk geti tekið pláss í lífinu sama hvernig það skilgreinir sig eða skilgreinir sig ekki. Öll eigum við tilvistarrétt í þessu lífi, það á enginn að segja manni hvernig við eigum að vera eða hvernig við eigum ekki að vera. Leyfum fólki að vera eins og það er, fögnum fjölbreytileikanum, berum virðingu fyrir fólki, því við erum eins misjöfn og við erum mörg. Látum hrokann og dómhörkuna til hliðar, því jú hroki og dómharka er yfirleitt knúin af ótta og þekkingarleysi.

Note to self, ekki vera fáviti, elskum okkur sjálf, elskum fólk og fögnum fjölbreytileikanum.


Greinin birtist upphaflega á vef VMA. Jafnrétti og kynheilbrigði er yfirskrift þemaviku í VMA í þessari viku. Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sjá einnig: Þemavika um jafnrétti og kynheilbrigði í VMA

Sambíó

UMMÆLI