Konan og Drekinn í Deiglunni

Konan og Drekinn í Deiglunni

Ósk Sigurðardóttir verður með myndlistarsýningu í Deiglunni 13.-14. og 20.-21. nóvember. Opnunartími frá kl.14-17. Sýningin heitir Konan og Drekinn.

Ósk hefur brennandi áhuga á að hjálpa fólki við að gera lífið skemmtilegra og innihaldsríkara. Hún starfar sem leikskólakennari, jógakennari og markþjálfi og sinnir listsköpun í frítíma sínum.

Sýningin Konan og Drekinn samanstendur af málverkum og sögu. Sagan sem fylgir með málverkunum fjallar um konu sem áttar sig á því að þótt hennar daglega líf sé harla gott þá þyrstir hana í eitthvað meira. Frelsið kallar á hana og hún leggur af stað í ferðalag. Á leiðinni safnar hún þekkingu og reynslu og finnur ýmislegt sem veitir henni meiri lífsfyllingu. Hún upplifir líka á eigin skinni að lífið á það til að ganga í bylgjum, ýmist upp eða niður. Á uppleiðinni ríkir gleði og tilhlökkun en á niðurleiðinni taka erfiðari tilfinningar við og þá getur verið snúið að halda dampi. Á vegferðinni hittir konan dreka og á við hann djúpstætt samtal sem verður til þess að hún öðlast meiri sjálfsþekkingu. Sagan er í raun hetjuför konunnar frá landi hins þekkta yfir í land hins óþekkta, ævintýrið. Hún heyrir kall frelsisins og leggur af stað, sigrast á erfiðleikunum og kemur til baka með gjafir sem nýtast ekki einungis henni heldur líka samferðamönnum hennar.

„Markmið sýningarinnar er vitundarvakning, að vekja fólk til umhugsunar, til vitundar um hversu mikill fjársjóður býr í hverju og einu okkar. Hvað gerist þegar við prófum að stíga út fyrir okkar hversdagslega líf og opna fyrir eitthvað nýtt? Með sýningunni langar mig að hvetja fólk til að sýna hugrekki til að opna eigin fjársjóðskistu og treysta flæðinu sem fylgir sköpunarkraftinum,“ segir Ósk.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó