Konni Conga – ,,Viljum við ekki að kennararnir okkar séu ánægðir?“

Þetta er aðsendur pistill. Ef að það leynist penni innra með þér eða eitthvað brennur sérstaklega á þér um málefni líðandi stundar, komandi stundar eða liðinnar stundar, þá skaltu ekki hika við að senda á okkur fyrirspurn. Hvort sem um er að ræða frétt, afþreyingarefni, pistil eða annað sem þér dettur í hug getur þú sent það á kaffid@kaffid.is eða hafa samband á Facebook síðunni okkar.

Hákon Örn Hafþórsson sem gengur stundum undir listamannanafninu Konni Conga er menntaður kennari.

Hákon Örn Hafþórsson sem gengur stundum undir listamannanafninu Konni Conga er menntaður kennari.

Hákon Örn Hafþórsson skrifar:

Sem kennaramenntaður maður hefur mér aldrei hugsast að byrja kenna. Ástæðan er einfaldlega sú að ég tel mig eiga betra skilið. Sem forvarna- og félagsmálaráðgjafi fékk ég smjörþefinn af því hvernig er að kenna og það er áreiðanlega frábært starf, starf sem ég gæti vel hugsað mér að sinna. Starf sem ég hafði meira að segja hugsað mér að sinna en maður sér ekki inn í framtíðina og hvernig hlutirnir breytast. Ég hef lítinn áhuga á því að starfa sem kennari ef ég er ekki metinn almennilega fyrir það góða starf sem ég myndi skila af mér.

Eins og ég sé þetta eru það ekki aðeins kjör kennara sem þarf að bæta, heldur huga að öllu því grundvallarstarfi sem gerir samfélagið okkar að stöðugri heild. Ég hef ekki mikið verið að flagga skoðunum mínum á þessum málum á netinu en hef ákveðið að flagga í fulla stöng að þessu sinni. Þurfum við ekki að velta því fyrir okkur hvað er mikilvægast í þjóðfélaginu okkar? Ef mér skjátlast ekki þá á kennsla og skólaganga að ganga út á að undirbúa fólk fyrir framtíðina. Það er auðvitað ekkert nema gott og blessað en veit einhver hérna hvernig framtíðin lítur út? Við kennum börnum sögu, tungumál, stærðfræði, líffræði, eðlisfræði og alla þessa hluti sem bæði efla gáfur og getu þeirra og það er ekkert nema jákvætt, en hvernig vitum við að þessir hlutir eigi eftir að vera sá farvegur sem einstaklingurinn vill vaxa og þroskast í? Er þekking í akademískum fögum ekki hálf tilgangslaus ef metnaðurinn og áhuginn til að fylgja henni eftir er ekki til staðar?

Þetta er stór spurning, ég veit. En mín tillaga er hinsvegar sú að við byrjum fyrr að láta börn elta ástríðu sína því ástríða veitir þeim tilgang, skoðanir og betri sess í þjóðfélaginu. Yrði ekki betra að efla sköpunargáfur, áhuga, drauma og viljann til að láta drauminn rætast frekar en að setja alla undir sama hatt og læra sömu formúluna? Ég er alls ekki að gera lítið úr formúlunni, en formúlan getur gert lítið úr mörgum. Hún er samt ekki ómikilvægari en t.d. dans, en við kennum ekki dans. Dansinn sem veitir manni hreyfingu, betri líkamsvitund og útrás fyrir líkama og sál. Mér finnst við oft vaða of djúpt með því að láta eins og þessi fög sem allir læra séu besta leiðin til þess að verða betri. Fyrir mér er það þvæla. Eigum við ekki frekar að efla getuna til að undirbúa okkur undir aðstæður sem við sjáum ekki fyrir?

Mér finnst við vera löngu búinn að gleyma af hverju við kjósum að mennta okkur. Við eigum að mennta okkur út frá áhuga, en ekki kjörum. Við eigum að mennta okkur til þess að verða bestu útgáfurnar af okkur sjálfum. Við eigum að mennta okkur til þess að skapa okkur og öðrum betri stöðu í lífinu. Viljum við ekki að kennararnir okkar séu ánægðir með stöðu sína og starf og líði eins og þeir séu vel metnir? Hjálpar það ekki okkur öllum?

Eflum ástríðu og sleppum því að fara eftir bókinni annað slagið. Annars endum við öll eins og ég, með kennaramenntun á bakinu sem nýtist engum.

Ykkar einlægur

UMMÆLI