Konur eru klárari

Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs skrifar

Nýverið birtust niðurstöður úr spurningavagni RHA þar sem viðhorf íbúa á svæðinu til ýmissa samfélagslegra þátta var kannað. Ein spurning fjallaði um rafbíla og hljóðaði hún svona:

Hversu líklegt er að næsti bíll sem þú kaupir verði rafbíll?

Það er hægt að greina tölfræði ofan í kjölinn en stundum er betra að hafa hlutina einfalda. Það sem mér þótti áhugaverðast við niðurstöðuna er að konur eru greinilega klárari en karlar. Hvernig er hægt að draga svo sterka ályktun af einfaldari spurningu? Jú, 47% kvenna sögðu að líklega yrði næsti bíll sem keyptur yrði á heimilið rafbíll, meðan einungis 40% karla töldu líklegt að næsti bíll yrði rafbíll. Auðvitað hefði ég viljað sjá miklu hærri tölur en allavega eru konurnar þó aðeins klárari.

Konur eru klárari en karlar af því að fleiri konur gera sér grein fyrir því að rafbílar eru orkunýtnasta ökutækið. Eyðslunettur bensínbíll sem eyðir 6 l/100km notar um 60 orkueiningar fyrir hverja 100 km sem eknir eru. Rafbíll af svipaðri stærð þarf hins vegar ekki nema 20 orkueiningar fyrir sömu 100 km eða einungis um þriðjung af þeirri orku sem bensínbíllinn þarf. Rafbílar skila sem sagt sömu þjónustu með minna magni af orku.

Konur eru klárari en karlar af því að fleiri konur gera sér grein fyrir því að rafbíllinn er mun hagstæðari í rekstri en slíkt vegur oftast upp hærra innkaupsverð. Þær vita líka að rafbíllinn er ekki bara ódýrari vegna þess að hann borgar engin veggjöld. Ef veggjöld væru lögð jafnt á bensín- og rafbíla þá myndi 100 km akstur í dag kosta rafbílinn um 700 kr. en bensínbílinn rúmar 1.200 kr.

Konur eru klárari en karlar af því að fleiri konur gera sér grein fyrir því að rafbílar nota endurnýjanlega orku ólíkt bensínbílum. Þær vita að þegar þú brennir bensíni þá ertu í raun að arðræna næstu kynslóð enda að nota auðlind sem er óendurnýjanleg. Sama bensín verður aldrei brennt tvisvar.

Konur eru klárari en karlar af því að fleiri konur gera sér grein fyrir því að takmörkuð drægni rafbíla skiptir engu máli. Þær vita nefnilega að hleðslustöðvar eru að rísa um allt land og að í vor kemstu milli Akureyrar og Reykjavíkur á hreinum rafbíl. Þær vita líka að hægt er að kaupa tengiltvinnbíla sem hafa brennsluvél fyrir lengri ferðir.

Konur eru klárari en karlar af því að fleiri konur gera sér grein fyrir því að til að ná skuldbindingum Íslands í loftlagsmálum þurfum við 40% minnkun á útblæstri í samgöngum miðað við árið 1990. Þetta þýðir einfaldlega að við þurfum að skipta út öllum fólksbílum landsins yfir í nýorkubíla fyrir árið 2030. Næsti bíll heimilisins verður því eiginlega að vera rafbíll.

Konur eru klárari en karlar af því að fleiri konur gera sér grein fyrir því að með rafvæðingu bíla fáum við ekki bara hagkvæmari samgöngur. Við fáum líka aukabónusa eins og minni sótmengun, minni hávaða, minni gjaldeyriseyðslu og meira orkuöryggi.

Konur eru klárari en karlar af því að fleiri konur gera sér grein fyrir því að rafbílar eru nútímalegir og að bensínbílar tilheyra tækni fortíðar.

Ef spurt væri: Hversu líklegt er að næsta sjónvarp sem þú kaupir verði túpusjónvarp? Hvert yrði þá svar karlmanna?

Þessi pistill er aðsend grein.

Sambíó

UMMÆLI