Koparlykillinn í Öxnadal – þjóðsaga eða sönn saga?

Koparlykillinn í Öxnadal – þjóðsaga eða sönn saga?

Á heimasíðu Minjastofnunar má nálgast lista af fornleifaskráningarskýrslum úr gagnagrunni stofnunarinnar. Í skýrslunum má finna upplýsingar um skráðar fornleifar (mannvistarleifar) í ólíkum sveitarfélögum vítt og breitt um landið. Skýrslurnar sem unnar eru af fornleifafræðingum og spanna tæplega 40 ára tímabil geyma mikið magn upplýsinga um hvar forfeður okkar stigu niður fæti áður en við komum til sögunnar. Forngripir (lausamunir) koma einnig töluvert við sögu. Ýmist eru frásagnir af gripum sem hafa fundist á umræddum stöðum og eru nú í öruggri vörslu minjayfirvalda eða sögusagnir um meinta dýrgripi sem ekki hafa fengist staðfestar. Varðveislumenn minjanna hafa um nokkurt skeið skoðað fornleifaskráningarskýrslur úr heimabyggð.

Í Fornleifaskráningu í Öxnadals- og Skriðuhreppi frá árinu 2008 (bls. 81) er vísað í áhugaverða þjóðsögu þar sem sögusviðið eru tvær hólaþyrpingar í Dalnum, svokallaðir Víghólar og Vaskárhólar.

Um Víghóla segir í skýrslu Minjastofnunar að á dögum Víga-Glúms hafi menn borist þar á banaspjótum og að fallnar hetjur úr bardaganum séu heygðar á staðnum. Við látum sannleiksgildi sögunnar liggja milli hluta. Nema hvað. Ef marka má fornleifaskráningarskýrsluna, fannst stórt og fúið mannsbein í hólunum, uppblásið úr jörðu löngu eftir meintan bardaga. Í annarri fornminjaskýrslu frá 19. öld segir frá mörgum haugum við bæinn Gloppu sem taldir eru vera grafir. Tryggvi Emilsson nefnir haugana í bók sinni Fátækt fólk: „…var mér sagt að það væru fornmannahaugar. Á þessum stað hefðu mæst skagfirskir menn og eyfirskir að jafna smáágreining og kom til vopnaviðskipta, féllu þar nokkrir ómerkir menn í valinn og voru heygðir í nesinu.“ Sögur herma að ferðalangar hafi séð afturgöngur stríðsmanna á sveimi í hólunum allt fram á 20. öld.

Vaskárhólar eru í nágrenni Víghóla. Í gömlum Sýslu- og sóknarlýsingum segir frá unglingi sem á að hafa fundið þar hring og lykil úr kopar. Þegar meintur fundur gripanna tveggja var skráður í fyrrnefnda Sýslu- og sóknarlýsingu var „mannsaldur“ liðinn frá fundinum, eins og það er orðað í lýsingunni, og sá sem fann gripina var þá nýlátinn. Sá er færir frásögnina til bókar tekur fram að hann þori ekki að ábyrgjast sannleiksgildi hennar en getur þess jafnframt að bæði hringurinn og lykillinn hafi gengið í erfðir innan fjölskyldu þess er fann gripina.

Eftir stutta frásögn af þjóðsögunni um lykilinn og hringinn í Vaskárhólum á fésbókarsíðu Grenndargralsins, hafði ónefnd kona af Suðurlandi samband við Varðveislumenn minjanna (munnl. heimild 10. apríl 2022). Konan hafði séð umfjöllun Grenndargralsins og vildi láta vita af því að hún geymdi fornan lykil sem allt benti til að væri sami lykill og sagan segir að fundist hafi í Vaskárhólum. Konan skrifar: „Lykill einn talinn úr fornmannagulli er í mínum fórum ásamt gjafbréfi fyrri eiganda.“ Áfram skrifar konan og vísar í texta gjafabréfsins: „Finnandi um 1770 var Jón Ólafsson Gloppu í Yxnadal. Gefandinn er Þorbjörg Jónsdóttir Bakka 1/8 1908.“

Myndir af gjafbréfinu og lyklinum, og Grenndargralið hefur undir höndum, varpa sannarlega ljósi á málið. Lykillinn lætur ekki mikið yfir sér. Hann er fallega skreyttur og koparlitaður, mögulega forn kirkjulykill. Í bréfinu segir (efnislega) að Jón Ólafsson hafi fundið lykilinn í Vaskárhólum, gefið syni sínum hann sem hafi aftur látið hann ganga til sonar síns Jóns. Sá var faðir Þorbjargar þeirrar sem skrifar undir bréfið árið 1908. Þorbjörg lýkur bréfinu á að tilkynna að hún láti lykilinn ganga áfram til dótturdóttur sinnar Guðnýjar. Frekari upplýsingar um „eignarhald“ lykilsins eftir 1908 koma einnig fram í bréfinu.

Ekki fylgdi sögunni hvernig varðveislukona lykilsins á Suðurlandi fékk hann í hendur. Enda er það kannski aukaatriði sögunnar. Stóru tíðindin er þau að „ný“ gögn í málinu gefa ástæðu til að ætla að frásögn af fundi forngripa í Öxnadal sem segir frá í fornleifaskráningarskýrslu sé mögulega annað og meira en þjóðsaga. Getum við staðfest að sagan um koparlykilinn í Vaskárhólum sé á rökum reist út frá málsgögnum? Dæmi hver fyrir sig.

Heimild: Grenndargralið

UMMÆLI

Sambíó