Kristín ráðin til U23 landsliðs Svíþjóðar: „Ætlaði að verða best svo ég vildi vinna með þeim bestu“

Kristín ráðin til U23 landsliðs Svíþjóðar: „Ætlaði að verða best svo ég vildi vinna með þeim bestu“

Akureyringurinn Kristín Hólm Geirsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá U23 ára landsliði Svíþjóðar í fótbolta. Kristín verður styrktarþjálfari liðsins og hún er spennt fyrir verkefninu. Hún ræddi við Kaffið um starfið og ferilinn sinn til þessa.

„Mér líst vel á þetta og ég er rosalega spennt. Þetta er allt öðruvísi umhverfi en það sem ég er vön hjá félagsliðum en ég er til í það. Ég fæ eitthvað kick útúr því að henda mér með hausinn á undan útúr þægindarrammanum,“ segir Kristín í samtali við Kaffið.is.

Hún segir að hjá U23 landsliði Svía muni hún vinna mjög náið með aðalþjálfara liðsins og sjúkrateyminu.

„Ég mun skipuleggja og sjá um upphitunar rútínur, sjá um fyrirbyggjandi æfingar og annað á vellinum. En ætli mitt stærsta verkefni verði ekki að fylgjast með æfingarálagi og svoleiðis þáttum í gegnum GPS búnað. Ég þarf að senda skýrslur til félaganna sem leikmennirnir spila hjá eftir hvern leik eða æfingarbúðir svo þjálfarar þar viti stöðuna á leikmönnum þegar þeir snúa til baka.“

Kristín hefur allt sitt líf verið tengd fótbolta en hún byrjaði að spila með Aftureldingu í Mosfellsbæ þegar hún var ung. Hún spilaði samt lengst af með Þór/KA á Akureyri og hafði mikinn metnað.  

„Ég var alltaf efnileg en náði einhvernvegin ekki að brjóta mig úr því, ég festist í efnilega gírnum. Náði einhvernvegin aldrei að verða best. Ég held það hafi verið blessun í dulargervi að festast þarna sem efnileg í mörg ár. Á þeim tíma langaði mig svo að spila fyrir landsliðið, það var draumurinn, langaði svo rosalega að hætta að fá „efnilegust“ verðlaunin og fá „best“. Þetta fékk mig til þess að byrja að pæla rosalega mikið í því hvað ég gat gert aukalega og byrjunin á mínum mikla áhuga á mannslíkamanum og frammistöðu í íþróttum. Sá áhugi tók síðan fljótlega yfir þann draum að verða fótboltastjarna.“

Kristín hætti í fótbolta 20 ára gömul og flutti til Írlands að til þess að læra Sport Coaching & Performance. Þar var hún í fjögur ár en í gegnum námið komst hún að hjá knattspyrnuliðinu Kristianstad í Svíþjóð þar sem Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari.

Kristín og Elísabet

„Ég náði að troða mér upp á Elísabetu Gunnars í Kristianstad í verknám eftir að hafa áreitt hana með skilaboðum á öllum samfélagsmiðlum sem hún átti, hún gat ekki opnað símann sinn án þess að ég poppaði upp. Þarna var ég búin að ákveða að ég ætlaði að verða best svo ég vildi vinna með þeim bestu.“

Eftir námið í Írlandi fór Kristín til Lincoln í Englandi og náði sér í Meistaragráðu í íþróttavísindum. Að því loknu fór hún aftur til Kristanstad og hóf störf sem styrktarþjálfari liðsins. Kristín talar vel um tíma sinn hjá Kristianstad og þá kveðst hún hafa lært heilmikið af Elísabetu Gunnarsdóttur, Betu.

„Að byrja minn feril hjá Kristianstad var það besta sem gat komið fyrir mig. Mér var í raun hent beint inn í ákveðið afreks-umhverfi og þurfi að aðlagast því strax. Á sama tíma þá fékk ég pláss til að prófa mínar hugmyndir og annað hvort gera vel með þær eða mistakast og læra. Mitt hlutverk var að passa að hafa rétt æfingarálag og að allir leikmenn væru leik tilbúnir. Mitt starf er í nánu samráði við aðalþjálfara og ég er þátttakandi í undirbúningi og framkvæmd æfinga þannig að mín vinna er umfangsmikil þótt hún sé kannski mest sýnileg með liðinu út á velli og inn í ræktinni. Það var ógeðslega gaman að vinna hjá KDFF og við náðum okkar besta árangi á síðasta tímibili þegar við enduðum í þriðja sæti og komumst í Meistaradeildina. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá finnst mér ég ennþá vera þjálfari þarna, ég er ekki alveg búin að segja bless, KDFF hjartað er mjög stórt.“

„Það eru ekki til nægilega mörg falleg og góð lýsingarorð í heiminum til þess að lýsa Betu eða hvernig það er að vinna með henni. Hún er grjóthörð og vill aldrei minna en það besta frá manni, sem ég persónulega nýt. Á sama tíma er hún svo góð í að vinna með manneskjum. Hún er fyrirmynd mín í svo mörgu og ég lærði og er enþá að læra fullt af henni. Ég er viss um að ég og Beta munum finna leiðir til þess að vinna aftur saman. Beta, Bjössi (aðstoðarþjálfari) og Orri (fyrrum styrktarþjálfari hjá KDFF) eru mínir mestu pepparar og eiga stóran part í mínum þroska sem þjálfari.“

„Ég var tvö tímabil með Kristianstad áður en ég ákvað að flytja til Stokkhólms í janúar á þessu ári. Núna nokkrum mánuðum síðar bauðst mér þetta verkefni hjá U23 landsliðinu og það er næsta stopp.“

Kristín hefur verið að flytja fyrirlestra og haldið námskeið um styrktarþjálfun hjá sænska knattspyrnusambandinu. Þegar það urðu þjálfaraskipti hjá U23 landsliðinu fyrir stuttu þá kom nafnið hennar upp í umræðuna fyrir stöðu svokallaðs Sport Scientist.

Þau höfðu svo samband við mig og buðu mér starfið. Ég var búin að ákveða að vera án félags þetta árið svo þetta var fullkomið tækifæri fyrir mig. Fyrir mér er þetta stór áfangi í mínum ferli og stórt tækifæri.“

Kristín eyðir tíma sínum þó ekki einungis í þjálfun en fyrir tveimur árum ákvað hún að búa til æfingardagskrá til þess að hjálpa fótboltafólki með styrktarþjálfun. Verkefnið hefur stækkað síðan þá og nú rekur hún sitt eigið fyrirtæki þar sem hún hjálpar allskonar íþróttafólki.

„Í ár ákvað ég að búa til betri umgjörð utan um starfið og opnaði vefsíðu og kalla þetta litla fyrirtæki mitt KHGperformance. Ég elska að vinna með duglegu fólki og þá sérstaklega ungu fólki með sömu drauma og ég var með þegar ég var unglingur. Í gegnum prógrammið mitt get ég gefið íþróttafólki þessa auka athygli sem maður oft þarf þegar maður er metnaðarfullur. Bráðlega mun ég klára næringaþjálfara nám og bæti því við mína þjónustu.“

UMMÆLI