Vinna og vélar

Læra framandi tungumál í öruggu landi

Læra framandi tungumál í öruggu landi

Þeir sjá framtíð sína á Íslandi og eru mjög ánægðir með skólagöngu sína í VMA og lífið á Íslandi. Báðir eru þeir Sýrlendingar, Hani Boobi er sautján ára og Ahmed Ibrahim Al Hussein er nítján ára. Þeir eiga það sammerkt að hafa dvalið lengi í öðru landi áður en leið þeirra lá til Íslands, Hani í Tyrklandi og Grikklandi en Ahmed í Líbanon.

Það er erfitt – eiginlega útilokað – að setja sig í spor þessara tveggja sýrlensku pilta. Langvarandi stríðsátök með tilheyrandi hörmungum í þeirra heimalandi gerði það að verkum að fjölskyldur þeirra sáu sér þann kost vænstan að yfirgefa landið. Þetta stríðshrjáða land er gjörbreytt frá því sem áður var og það fólk sem yfirgaf það sér framtíð sína ekki í sínu föðurlandi.

Eins og komið hefur fram á heimasíðunni VMA er VMA núna á vorönn með tilraunaverkefni sem kallað hefur verið Íslenskubrú, sem er í námsbraut fyrir nemendur af erlendum uppruna. Hani og Ahmed eru báðir á þessari námsbraut. Þeir eru sammála um mikilvægi þess að læra íslensku og þeir vilja leggja sig fram um að læra tungumálið enda sé það lykilaatriði í því að takast á við hið hversdagslega líf í nýju landi. Báðir skilja þeir og tala töluvert í íslensku og þeir segjast ná að skilja einfaldan texta og einfalt talað mál. Þeir eru líka sammála um að íslenskir vinir þeirra séu duglegir að aðstoða þá við að læra málið og tala málfræðilega rétt og það kunni þeir að meta. Auk skólans og vinanna segjast þeir læra tungumálið af samskiptum við vinnufélaga og viðskiptavini. Ahmed vinnur með skólanum í vetur í Bónus á Norðurtorgi og einnig tekur hann vaktir á veitingastaðnum Kurdo Kebab á Akureyri. Hani vinnur með skólanum á veitingastaðnum Taste við Ráðhústorg. Það er því í mörg horn að líta hjá þeim félögum.

Hani kom til Íslands fyrir þremur árum en áður hafði hann verið með fjölskyldu sinni í níu ár í Tyrklandi og var síðan tvö ár í Grikklandi. Í Tyrklandi var hann í fyrstu bekkjum grunnskóla. Frá Sýrlandi fór fjölskyldan í kjölfarið á því að Hani slasaðist alvarlega á handlegg eftir að hafa orðið fyrir sprengjubroti. Á handleggnum gefur að líta djúp ör eftir stóra aðgerð á handleggnum. Þrátt fyrir að mörg ár séu liðin síðan slysið varð og sárin hafa náð að gróa er handleggurinn þó viðkvæmur fyrir miklum kulda. Hani þarf því að passa að klæða sig vel í kuldatíð. Hann býr með foreldrum sínum, bróður og tveimur systrum í Naustahvefi á Akureyri, önnur þeirra er einnig í VMA. Eftir að fjölskyldan kom til Akureyrar fór Hani í Naustaskóla og var þar í tvo vetur en hóf nám í VMA sl. haust.

Ahmed kom til Akureyrar í ágúst 2022. Frá Sýrlandi lá leið fjölskyldunnar til nágrannaríkisins Líbanons þar sem hún var í átta ár. Í fjögur af þessum árum var Ahmed í skóla en vann ýmis störf hin fjögur árin, t.d. á veitingastöðum og í smíðum. Eftir að fjölskyldan flutti til Íslands var hún í tvær vikur í Reykjavík en kom svo til Akureyrar. Ahmed býr hér með foreldrum sínum, systur og bróður í Glerárhverfi og stundar Ahmed handbolta hjá Íþróttafélaginu Þór. Áður en hann kom til Íslands þekkti hann lítið sem ekkert til handbolta en hefur fengið góða kennslu í íþróttinni hjá félögum sínum í Þór og segist njóta þess að æfa og keppa. Fyrst eftir að fjölskyldan kom til Akureyrar var Ahmed í Giljaskóla en síðan lá leiðin í VMA.

Þeir félagarnir eru sammála um að það skipti öllu máli að búa við öryggi á Íslandi. Vissulega sé kaldara hér en fyrir botni Miðjarðarhafs en því megi vel venjast. Á Íslandi fái þeir tækifæri til menntunar og að vinna og þeir eru sammála um þeir hafi áhuga á að læra húsasmíði við VMA. En áður en að því komi þurfi þeir að læra meira í tungumálinu, að ná tökum á því sé lykillinn að svo mörgu í samfélaginu. Þeir segjast upplifa Íslendinga sem hjálplega og almennt gott fólk. Ahmed segist ekki hafa fundið fyrir rasisma hér en því hafi verið öðruvísi farið þegar fjölskyldan var í Líbanon. Þar hafi hún fundið fyrir rasisma í ríkum mæli.

GREIN: Vma.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó