Origo Akureyri

Læsishvetjandi ratleikur um Kjarnaskóg

Læsishvetjandi ratleikur um Kjarnaskóg

Í tilefni Alþjóðadags læsis, þann 8. september síðastliðinn, var sett af stað verkefnið Úti er ævintýri. Úti er ævintýri er ratleikur í Kjarnaskógi sem er læsishvetjandi.

Leikurinn gengur út á að þátttakendur leita að persónum úr vinsælum barnabókmenntum í skóginum. Sögupersónurnar eru valdar, hannaðar og smíðaðar af börnum í þriðja og fjórða bekk á Akureyri en fjöldamargir aðilar komu að verkefninu sem unnið var í víðtæku samstarfi stofnana og einstaklinga í bænum.

„Verkefnið sameinar lestur, barnamenningu, útivist, hreyfingu, listsköpun, náttúru- og menningarlæsi. Verkefnið auðgar auk þess menningarlíf í bænum og hvetur bæjarbúa og gesti til að nýta útivistarmöguleikana innan bæjarmarkanna enn betur,“ segir í tilkynningu en hér má lesa meira um verkefnið.

Hér er svo bókin með ratleiknum en hana má einnig finna á skilti við aðalbíðastæðið í Kjarnaskógi.

Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Í ár tóku Íslendingar í tólfta skiptið þátt í þessum alþjóðlega degi og hafa Miðstöð skólaþróunar við HA, Bókasafn HA, Amtsbókasafnið, Barnabókasetur og fræðslusvið Akureyrar starfað saman að undirbúningi ýmissa læsisviðburða í tilefni dagsins í gegnum tíðina.

„Undanfarin tvö ár höfum við verið að undirbúa þetta stóra verkefni sem ratleikurinn er. Verkefnið er samstarfsverkefni okkar í undirbúningshópnum, barna og ungmenna á Akureyri og fjölda stofnana og fyrirtækja sem hafa lagt okkur lið,“ segir í tilkynningu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó