Langar að halda áfram að gera gagn á Norðausturlandi

Langar að halda áfram að gera gagn á Norðausturlandi

Eiríkur Björn Björgvinsson, fyrrum bæjarstjóri Akureyrar, er í 1. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Eiríkur hefur búið og starfað á Norður- og Austurlandi í um 30 ár og segist hafa kynnst landshlutanum vel á þeim tíma.

„Ég hef fengið tækifæri til að koma að mörgum málum sem snerta uppbyggingu og innviði samfélaganna. Vegna reynslu minnar og þekkingar á öllu svæðinu fannst mér rétt að bjóða áfram fram krafta mína fyrir íbúa kjördæmisins. Mig langar að halda áfram að gera gagn,“ segir Eiríkur í spjalli við Kaffið.is.

Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi, skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í kjördæminu en heildarlisti verður kynntur von bráðar. Eiríkur segir að listinn sé mannaður af fólki með fjölbreyttan bakgrunn, mikla og góða þekkingu á því sem brennur á fólki á öllu svæðinu og ástríðu fyrir því að ná árangri.

„Við erum með öflugan hóp ungs fólks í bland við eldri einstaklinga. Við viljum leggja mikla áherslu á unga fólkið og framtíðina auk þess að byggja á þeirri miklu reynslu og þeim dugnaði sem býr í fólkinu í landshlutanum.“

Eiríkur er menntaður íþróttafræðingur og var íþrótta- og tómstundafulltrúi á Egilsstöðum frá 1994 til 1996 og tók þá við starfi deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar. Árið 2002 var hann ráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins Austur-Héraðs. Tveimur árum síðar var hann ráðinn bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs sem varð til við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi.

Eiríkur fór aftur norður þegar hann var ráðinn bæjarstjóri á Akureyri árið 2010 og gegndi því starfi í átta ár. Í dag starfar hann sem sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar. Nú býður hann sig fram til þingmennsku í fyrsta sinn.

„Ég ákvað að bjóða mig fram fyrir Viðreisn vegna þess að grunnstefna Viðreisnar heillaði mig. Flokkurinn leggur áherslu á frjálslyndi og jafnrétti. Við viljum frjálst og opið þjóðfélag þar sem jafnvægi ríkir á milli frelsis einstaklinga, jafnréttis og samkenndar.“

Hann hlakkar til kosningabaráttunnar. „Stemningin er mjög góð í hópnum. Við hlökkum til að heyra í fólki í kjördæminu og fylgja eftir þeirra væntingum og áherslum. Við setjum fólkið í fyrsta sæti.“

UMMÆLI

Sambíó