The Last Shadow Puppets

tlsp

Miles Kane og Alex Turner skipa hljómsveitina The Last Shadow Puppets

Kristján Steinn Magnússon skrifar:

The Last Shadow Puppets er magnað tvíeyki þeirra Miles Kane og Alex Turner, aðalmanns Arctic Monkeys. Turner er að mínu viti einhver magnaðasti textahöfundur minnar kynslóðar, uppfullur af frumlegu líkingamáli og tilfinningum sem flestir ungir menn nútímans þekkja úr nútíð eða tiltölulega nýskeðri þátíð. The Last Shadow Puppets gaf út sína aðra breiðskífu í vor sem ber nafnið Everything You’ve Come to Expect. Yrkisefni Turners á plötunni einkennast eins og oft áður af glímu hans við dularfullar kvenkyns persónur og hið mikla ginnungagap sem oft myndast á milli hjartans og heilans við ákvarðanatöku í málum af þeim meiði, líkt og í laginu The Element of Surprise:

There’s a set of rickety stairs
In between my heart and my head
And there ain’t much that ever bothers going up them

Titillag plötunnar hefur síðan að geyma stórkostlega lýsingu á pari í tilhugagír:

Tiger eyelashes, summer wine
Goosebump soup and Honey Pie
Piggy in the middle I’m the baddy’s daddy
About to make my golden move
Apocalyptic lipstick campaign
Four Horsemen in a one horse race
The dance she does to Shadowplay
Appeals to an ancient impulse

Allt öðlast þetta svo líf og merkingu í eitursvölum flutningi Turners sem hefur einstaka sviðsnærveru. Það sem gerir þessa plötu að því sem hún er finnst mér þó vera stórkostlegar strengjaútsetningar sem eru í höndum Owens Pallett. Hann sá einnig um strengi á fyrri plötu Last Shadow Puppets og hann nær að skapa einhverja James Bond stemningu sem svínvirkar með tónlist þeirra bræðra. Kúlið, dulúðin, ástríðan og angurværðin skila sér í undursamlegum kokteil sem sómar sér jafnvel sem backdrop fyrir kósýkvöld með kæró eða mynd um einkaspæjara hennar hátignar.

Í meðfylgjandi myndbandi flytja þeir félagar plötuna frá upphafi til enda ásamt nokkrum lögum af fyrri plötunni í endann. Ég var að enda við að renna þessu í gegn og komst að þeirri niðurstöðu að þetta þurfi fleiri að sjá. Stórmagnað alveg hreint.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó