Múlaberg

Lata stelpan

Inga Dagný Eydal skrifar:

Fyrr í þessum pistlum mínum hef ég minnst á hana Litlu Ljót sem var ævintýraleikrit með söngvum fyrir börn. Ævintýrið var gefið út á 45 snúninga hljómplötu á mínum uppvaxtarárum og var að þeirra tíma sið fullt af innrætingu um útlit og atgerfi ungra stúlkna og hvernig hamingjan yrði ekki höndluð nema með aðgerðum til að leiðrétta hugsanlega vöntun á slíku. Töfralindin í skóginum, góða álfkonan og ýmislegt sem í ævintýrum kom í stað fegrunaraðgerða dagsins í dag. Að vísu voru ekki snjalltæki og sjálfur að tröllríða tilverunni líkt og núna en einhvernvegin komust samt skilaboðin til skila, þó svo að þá, eins og í dag, hafi þau oft verið oftúlkuð af ungum huga á viðkvæmu þroskaskeiði.

En bækur og ævintýri fjölluðu um ýmsilegt fleira en útlit. Það mátti að sjálfsögðu nota þau til að koma til skila ábendingum um höfuðsyndir eins og t.d. leti, græðgi og dramb. Um innrætingu í barnabókum hafa verið skrifaðar lærðar greinar og margar bækur verið skrifaðar til að bæta úr þessu. Lína Langsokkur er kannski ein sú allra þekktasta og áhrifamesta og hafði fyrir mína kynslóð gífurleg áhrif. Stelpa sem þorði að vera óþekk og var bæði sterk og hugrökk,- þetta var í hrópandi og mjög frelsandi ósamræmi við innrætinguna um duglegu, prúðu og dömulegu stúlkuna sem við ólumst upp við. En meira að segja Lína fór yfir strikið og þykir ekki lengur pólitískt „rétt” í augum þeirra sem kunna að mæla slíkt. Ég hef svo lítið vit á því að ég man ekki einu sinni af hverju hún uppfyllir ekki lengur uppeldisleg markmið.

Hitt veit ég og man að bækur höfðu á mig gífurleg áhrif eins og t.d. bókin um Lötu stelpuna. Myndskreytingarnar voru snilld og sagan um þessa rauðhærðu snót sem var svo löt að húsið hennar og allar eigur flúðu að heiman og hún vaknaði upp alein og yfirgefin, var mjög áhrifarík. Fyrir dagdreymara, skýjaglóp og „lata” stelpu eins og sjálfa mig sá ég alveg fyrir mér að þetta yrðu mín örlög. Ég yrði alein og yfirgefin með ógreitt hárið, fatalaus og snauð eins og sú rauðhærða. Svo fór ég að rugla saman því að vera löt og því að gera það sem mér þótti gaman. Þannig óx ég úr grasi með þá sannfæringu að ef ég gerði það sem öðrum þætti skynsamlegt fyrir mig, jafnvel þótt mér þætti það hvorki skemmtilegt eða spennandi, þá væri ég dugleg. Þá væri ekki hætta á að ég fengi á mig „lata” stimpilinn.

Fyir mig hefði mátt skrifa margar svona bækur, „Hvatvísa stelpan”, „stelpan sem týndi öllu”, „stelpan sem nennti ekki að lita myndirnar, ….þetta hefði getað verið hinn fullkomni bókaflokkur.

Þetta er auðvitað ekkert einsdæmi og allir þekkja áhrifamátt barnabóka, ljóða, spakmæla og foreldra varðandi iðjusemi, nægjusemi, vera dyggur, trúr og tryggur, prúður, stilltur, forðast dramb, ólæti, hlátur, dagdrauma, frekju, grát…..og svo framvegis. Við eyðum fyrstu áratugum ævinnar í taka inn það sem okkur er kennt og það sem við upplifum og svo eyðum við því sem eftir er að reyna að vinsa úr það sem okkur er raunverulega hollt og gott og henda út hinu sem gerði okkur aldrei neitt gott og hafði jafnvel skaðleg áhrif á okkur.

Þetta er sannarlega ekki einfalt. Ég er t.d. sjálf að reyna að vinda ofan af því að finna út úr því á miðjum aldri hvað mig langaði raunverulega að gera og hvernig ég vildi verða. Kannski vildi ég innst inni bara verða “Lata” stelpan, dagdreymin og utan við mig. Hvað veit ég, kannski get ég bara blómstrað á þann hátt á seinni hluta ævinnar,- ef mér tekst að hætta að vera alltaf að ryksuga!

Það er flókið að vera manneskja og það er flókið að ala upp börn. Ekki bara fyrir foreldra heldur allt samfélagið því að öll tökum við þátt og öll þurfum við að hafa í huga hvað það er sem við innrætum ungum og ómótuðum sálum. Persónulega vildi ég að okkur bæri gæfa til að endurrita uppeldisaðferðir og fyrirmyndir þannig að börnin okkar upplifi einn góðan veðurdag að jöfnuður sé orðinn sjálfsagður, þeim sé fullkomlega eðlilegt að vera góð hvort við annað en þau muni líka kunna að standa með sjálfum sér og njóta þess að vera ólíkar manneskjur. Þá verður kannski minna sem þau þurfa að burðast með og reyna að losa sig undan seinna á ævinni.

Nú er ég til dæmis búin að sitja hér í drjúga stund og skrifa í stað þess að búa um rúmið og ryksuga forstofuna,- lata stelpan reynir að gera uppreisn gegn sjálfri sér!

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Inga Dagný Eydal er Norðlendingur á besta aldri sem starfað hefur m.a. við hjúkrun, kennslu og tónlist. Hún býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni og hundi og sinnir eigin endurhæfingu og sköpun s.s. í ljósmyndun og skrifum, matargerð og listmálun. Veltir gjarnan vöngum yfir tilverunni, mannlífinu og vitleysunni í sjálfri sér og skrifar niður í pistla. Til þess að lesa fleiri pistla sem Inga hefur skrifað smelltu hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó