Laugardagsrúnturinn: Fossar, fé og fiskar.Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Laugardagsrúnturinn: Fossar, fé og fiskar.

Við Akureyringar erum mjög heppin að búa á ótrúlegu svæði. Hér eru náttúrufegurð, mannlíf og einstakar upplifanir að finna allt í kring. Flest erum við þó ekki nógu dugleg að nýta okkur þessar perlur í nærumhverfinu. 

Laugardagsrúnturinn er vikulegur pistill hér á Kaffinu sem ætlað er að veita bæði einstaklingum og fjölskyldufólki innblástur fyrir stuttar dagsferðir í nágrenni við Akureyri. Á hverjum föstudegi birtist hér grein með ferðalýsingu sem tekur mið af opnunartímum, veðurfari og öðrum þáttum fyrir komandi laugardag. Þannig getur hver lesandi fylgt þeirri ferðalýsingu með sínum vinum og fjölskyldu á laugardeginum, eða valið og hafnað úr henni eftir því hvað vekur áhuga hvers og eins.

Laugardagsrúnturinn þessa vikuna ber nafnið „Fossar, fé og fiskar.“ Í þetta skiptið er laugardagsrúnturinn sérstaklega hugsaður fyrir börnin, með fjölskyldufólk í huga. Eftir þennan langa dag þar sem börnin fá að hlaupa upp og niður stiginn upp að gullfossi, hitta kindur, kýr og hesta, leita að gullfiskum og skreppa í sund, svo eitthvað sé nefnt, ætti það að reynast afskaplega einfalt að koma þeim í háttinn þegar heim er komið.

Hvað skal hafa með: Sundföt og útifatnaður eftir veðri

Áætlaður ferðatími: 6 til 9 klukkutímar

Erfiðleikastig: Engir malarvegir, engar erfiðar göngur. Barnvæn fjölskylduferð.

Haldið af stað

Á laugardagsrúntinum þessa vikuna er leiðinni heitið í austurátt. Við leggjum af stað seinnipart morguns, kannski um hálf ellefu leytið, enda er ágætt að fá að sofa út um helgar. Fyrst þurfum við að koma okkur austan megin við Vaðlaheiði og höfum við hér val um göngin eða Víkurskarðið og höldum svo áfram inn Fnjóskadalinn.

Daladýrð

Í Brúnagerði í Fnjóskadal er fyrsta stoppið okkar þessa vikuna, en það er húsdýragarðurinn Daladýrð. Það tekur okkur um það bil 20 mínútur að keyra hingað ef við keyrum um göngin. Ef við veljum útsýni yfir þægindi og keyrum Víkurskarðið tekur keyrslan um það bil 35 til 40 mínútur. Munum bara að leggja ekki of snemma af stað því garðurinn opnar klukkan 11:00. Aðgangseyrir hér er ekki nema 1.500kr fyrir fullorðna og fyrir þann pening fáum við að hitta hesta, kindur, hænur, svín og ýmis fleiri dýr. Þar að auki fáum við að endurvekja okkar innra barn með því að hoppa í heyi og klappa bæði kettlingum og geitum. Hér getum við reiknað með að vera í klukkutíma, jafnvel hátt í tvo.

Ljósmynd: Daladýrð

Goðafoss

Hvað er langt síðan þú keyrðir síðast fram hjá Goðafossi? Afskaplega margir norðlendingar telja þessa tölu í vikum, ef ekki dögum, sama hvenær spurt er. En hvenær stoppaðiru síðast, gekkst upp að fossinum og settist niður til að njóta fegurðarinnar? Ef þú vinnur ekki í ferðamálabransanum þá er það líklega orðið talsvert mikið lengra síðan. Það er ekki að ástæðulausu sem annar hver farþegi á skemmtaferðaskipunum í sumar fór beinustu leið upp að Goðafossi eftir að skipið lagði í höfn. Við getum talið okkur heppin að búa svo nálægt slíkri náttúrufegurð. Nú eru skipin hætt að koma og á þessum árstíma gera talsvert færri ferðamenn sér ferðina hingað norður. Þannig er nóvember fullkominn tími fyrir okkur heimafólk að dást að Goðafossi án þess að þurfa að troðast fram hjá hundruðum túrista. Þess vegna er næsta stoppið okkar hér á Goðafossi. Það tekur okkur tæpan hálftíma að keyra hingað frá Daladýrð og við getum reiknað með að eyða hér allt frá hálftíma til klukkutíma.

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Laugar

Næst stingum við upp á því að snara sér yfir heiðina og keyra um hringveginn í um það bil korter yfir á Laugar fyrir kaffitíma eða seinbúinn hádegismat. Á Laugum er fínasti veitingastaður og verslun sem heitir Dalakofinn (eða „Dallas,“ líkt og unga fólkið á heimavistinni hinu megin við götuna segir). Hér getum við sest niður og pantað okkur mat ef við viljum, en við getum líka bara gripið kaffibolla og bakkelsi í versluninni og haldið leiðinni áfram.

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Kaldbakstjarnir og Yltjörn

Næst er leiðinni heitið í norðurátt til Húsavíkur. Keyrslan þangað frá Laugum tekur um hálftíma og ekki vantar upp á útsýnið á leiðinni, þar sem við sjáum út um bílgluggann stöðuvötn, tjarnir, gervigíga og hraunbreiður. Við ætlum þó ekki alveg strax inn fyrir bæjarmörkin, því rétt áður en að þeim kemur eru bæði Kaldbakstjarnir vestan við veginn og Yltjörn austan megin. Ef við höfum farið sérstaklega rólega yfir hingað til þá erum við að mæta upp að Kaldbakstjörnum um svipað leyti og sólin sest, sem gefur okkur hina fullkomna lýsingu til að njóta þessarar fallegu náttúru. Yltjörn er aftur á móti manngerð tjörn sem útbúin var til að taka við affalli frá virkjun í grenndinni og er vatnið í henni yfirleitt á bilinu 15 til 30 gráðu heitt. Yltjörn er mun betur þekkt sem „gullfiskatjörnin“ og ekki af ástæðulausu. Við getum staldrað við á þessu svæði í hálftíma til að rétt kíkja á gullfiskana sem búa í Yltjörn, eða við getum staldrað lengur við og gengið í kring um Kaldbakstjarnir. Nú eða gert bæði!

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Sjóböðin eða sund á Húsavík

Áður en við höldum heim stingum við upp á tveim kostum fyrir rúsínuna í pylsuendanum. Ef við viljum forgangsraða það að leyfa börnum að busla og spara peninga, þá er tilvalið að skella sér í sund í sundlaug Húsavíkur. Hér ber að hafa í huga að sundlaugin lokar klukkan 17:00. Ef við hins vegar viljum frekar slaka á eftir ævintýri dagsins og höfum aðeins meira á milli handanna, þá er tilvalið að fara í Sjóböðin, en þau eru opin fram á kvöld. Eftir að hafa baðað okkur bíður okkar róandi keyrsla heim til Akureyrar í myrkri eða rökkri, eftir því hversu hratt við fórum yfir, sem mun taka okkur klukkutíma.

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Þannig hljóðar laugardagsrúnturinn þessa vikuna. Eins og áður segir er hver laugardagsrúntur einungis ætlaður til að veita okkur innblástur til að skoða betur nærumhverfið. Ekkert við ferðaplanið er heilagt. Kannski veist þú um skemmtileg aukastopp á leiðinni. Kannski nennir þú ekki öllum rúntinum en vilt endilega skella þér á bara eitt af stoppunum. Kannski viltu byrja fyrr eða seinna eða gera hann öfugt. Það eina sem við hjá Kaffinu vonumst til er að laugardagsrúnturinn hafi hvatt þig til þess að skoða nærumhverfið betur og vonandi gátum við gefið þér einhverjar hugmyndir.


UMMÆLI

Sambíó