Laugardagsrúnturinn: Fram fjörðinnBotnsfoss er bara ein af mörgum földum perlum Eyjafjarðar sem við sjáum á Laugardagsrúntinum þessa vikuna. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Laugardagsrúnturinn: Fram fjörðinn

Við Akureyringar erum mjög heppin að búa á ótrúlegu svæði. Hér eru náttúrufegurð, mannlíf og einstakar upplifanir að finna allt í kring. Flest erum við þó ekki nógu dugleg að nýta okkur þessar perlur í nærumhverfinu. 

Laugardagsrúnturinn er nýr vikulegur pistill hér á Kaffinu sem ætlað er að veita bæði einstaklingum og fjölskyldufólki innblástur fyrir stuttar dagsferðir í nágrenni við Akureyri. Á hverjum föstudegi birtist hér grein með ferðalýsingu sem tekur mið af opnunartímum, veðurfari og öðrum þáttum fyrir komandi laugardag. Þannig getur hver lesandi fylgt þeirri ferðalýsingu með sínum vinum og fjölskyldu á laugardeginum, eða valið og hafnað úr henni eftir því hvað vekur áhuga hvers og eins.

Fyrsti laugardagsrúnturinn ber nafnið “Fram fjörðinn” og er um svæði sem flestir, ef ekki allir, Akureyringar þekkja vel: Eyjafjarðarsveit. Eins og öðrum laugardagsrúntum er þessum ætlað að taka okkur um svæði sem við höfum oft séð áður, en fá okkur til þess að staldra við og læra betur að meta það.

Hvað skal hafa með: Nesti, sundföt, útifatnaður eftir veðri

Áætlaður ferðatími: 4 til 6 klukkutímar

Erfiðleikastig: Engir malarvegir, engar nauðsynlegar göngur. Gott fyrir fjölskyldur.

Jólahúsið

Ljósmynd: Akureyrarbær (Visit Akureyri)

Fyrsta stoppið á rúntinum okkar er gamla góða Jólahúsið. Við leggjum af stað þangað frá Akureyri um hádegisleytið, enda opnar ekki fyrr en klukkan 12. Það eru eflaust fáir lesendur sem hafa ekki heimsótt jólahúsið áður, en við hjá Kaffinu erum á þeirri skoðun að það sé næstum því ómögulegt að verða þreyttur á þessum yndislega stað. Við eyðum hér allt frá hálftíma upp í klukkutíma, göngum um Jólahúsið sjálft, garðinn í kring og kíkjum í svarta húsið, Bakgarðinn, sem stendur beint við hliðina á. Kannski langar okkur að versla eitthvað fínerí, en jafnvel þó við gerum það ekki er alltaf huggulegt að staldra hérna við og getur verið erfitt að standast það að kaupa nokkrar karamellur eða ristaðar möndlur.

Botnsreitur

Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Næst færum við okkur inn að Botnsreit. Botnsreitur er yndislegur lítill gróinn reitur um mínútu keyrslu sunnan við Hrafnagil sem íbúar Eyjafjarðarsveitar og Hrafnagils sérstaklega þekkja vel en virðist hafa farið framhjá þó nokkrum Akureyringum. Hér setjumst við niður á borð, nú eða í grasið ef okkur sýnist og borðum nestið okkar, hugsanlega með einhverju góðgæti með sem við gátum ekki sleppt í Jólahúsinu. Borðið og bekkirnir blasa við okkur um leið og við komum inn í reitinn og er ekki slappt að borða hér, hlustandi á gljáfrið í Botnsfossi. Hér getum við staldrað við í snöggar 20 mínútur, skellt í okkur nestinu og haldið áfram, eða við getum staldrað við í klukkutíma og gengið aðeins um stígana um botnsreit eða leyft börnunum að leika sér í trjáhúsinu. 

Saurbæjarkirkja

Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Næst hoppum við upp í bíl og höldum í átt að einum af hápunktum ferðarinnar, Saurbæjarkirkju. Saurbæjarkirkja er ein af aðeins sex upprunalegum torfkirkjum sem enn standa á Íslandi og tekur það okkur um það bil korter að keyra þangað frá Botnsreiti. Á leiðinni sjáum við flott mannvirki líkt og Grundarkirkju og Djúpadalsvirkjun. Að jafnaði er Saurbæjarkirkja læst að vetri til, en það dregur ekki úr fegurð hennar að utan. Þar sem við beygjum inn á bílastæðið upp að Saurbæjarkirkju sjáum við okkur á hægri hönd listaverkið Eddu eftir listakonuna Beate Stormo, sem er merkilega stór og flott stytta af belju. Eftir að við skoðum Saurbæjarkirkju getum við trítlað yfir að listaverkinu Eddu og skoðað kúna betur. Hér getum við reiknað með að eyða allt að hálftíma í að skoða bæði kirkjuna og listaverkið.

Grundarkirkja

Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Eftir að við kíkjum á Saurbæjarkirkju er heimleiðin í raun hafin, en fjörinu er ekki lokið. Á bakaleiðinni ætlum við að staldra við og virða betur fyrir okkur mannvirki sem við sáum okkur á vinstri hönd á leiðinni að Saurbæjarkirkju. Grundarkirkja var vígð árið 1905 og er án efa ein af fallegustu sveitarkirkjum á landinu, ef ekki sú allra fallegasta. Þetta er líklega stysta stopp dagsins, enda farið að síga á seinni hlutann á rúntinum, en að sjálfsögðu er tíminn á hverju stoppi undir hverjum og einum komið.

Skógarböðin eða sund á Hrafnagili

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands (Upplifðu Norðurland)

Loks komum við að síðasta stoppinu, en hér stingum við upp á tveim möguleikum í svipuðum dúr. Ef við viljum leggja áherslu á að spara peninga og/eða leyfa börnum að busla, þá mælum við með að skella sér í sund á Hrafnagili áður en við keyrum heim til Akureyrar austan megin í firðinum, til þess að klára Eyjafjarðarhringinn. Ef við hins vegar viljum eitthvað aðeins afslappaðra og tímum aðeins fleiri krónum, nú eða ef við eigum árskort fyrir, þá jafnast fátt á við að slappa af í Skógarböðunum. Ef við eyðum hér einhvers staðar á bilinu einum til þrem klukkutímum, þá ættum við að koma aftur á Akureyri í annaðhvort kaffitíma eða kvöldmat, eftir því hversu hratt við fórum yfir.

Þannig hljóðar fyrsti laugardagsrúnturinn. Eins og áður segir er hver laugardagsrúntur einungis ætlaður til að veita okkur innblástur til að skoða betur nærumhverfið. Ekkert við ferðaplanið er heilagt. Kannski veist þú um skemmtileg aukastopp á leiðinni. Kannski nennir þú ekki öllum hringnum en vilt endilega skella þér á bara eitt af stoppunum. Kannski viltu byrja fyrr um morguninn, gera hringinn öfugann og enda heima rétt eftir hádegi. Það eina sem við hjá Kaffinu vonumst til er að laugardagsrúnturinn hafi hvatt þig til þess að skoða nærumhverfið betur og vonandi gátum við gefið þér einhverjar hugmyndir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó