Laugardagsrúnturinn: Jólastund við vatniðLjósmynd fengin hjá Markaðsstofu Norðurlands

Laugardagsrúnturinn: Jólastund við vatnið

Við Akureyringar erum mjög heppin að búa á ótrúlegu svæði. Hér eru náttúrufegurð, mannlíf og einstakar upplifanir að finna allt í kring. Flest erum við þó ekki nógu dugleg að nýta okkur þessar perlur í nærumhverfinu. 

Laugardagsrúnturinn er vikulegur pistill hér á Kaffinu sem ætlað er að veita bæði einstaklingum og fjölskyldufólki innblástur fyrir stuttar dagsferðir í nágrenni við Akureyri. Á hverjum föstudegi birtist hér grein með ferðalýsingu sem tekur mið af opnunartímum, veðurfari og öðrum þáttum fyrir komandi laugardag. Þannig getur hver lesandi fylgt þeirri ferðalýsingu með sínum vinum og fjölskyldu á laugardeginum, eða valið og hafnað úr henni eftir því hvað vekur áhuga hvers og eins.

Nú er desember kominn af stað og því jafnvel þeir allra þrjóskustu farnir að vilja finna jólastemmingu. Við hjá Kaffinu erum engin undantekning hvað það varðar og markar þessi Laugardagsrúntur þess vegna upphaf Jólakaffisins í ár. Jólakaffið er hægt að skoða í gegnum flipa á heimasíðu Kaffisins og mun ýmislegt jólefni koma þangað inn í desember. Rúnturinn þessa vikuna er þess vegna til eins allra jólalegasta staðar sem finnst norðan heiða og þó víðar væri leitað: Mývatnssveitar. Þar ætlum við að njóta fallegrar náttúru í vetrarbúning, heimsækja heimili jólasveinanna og jafnvel hitta á þá! Því ber rúntur dagsins titilinn „Jólastund við vatnið.“

Hvað skal hafa með: Sundföt, nesti, útifatnaður eftir veðri, ágætir gönguskór.

Áætlaður ferðatími: 9 tímar.

Erfiðleikastig: Snóþekja/hálka á vegum og stígum. Auðveld ferð en fara skal varlega við akstur og göngu.

Haldið af stað

Aftur er leiðinni haldið austur fyrir heiði. Hér er vissulega val á milli Vaðlaheiðarganga og Víkurskarðs en miðað við veður eru göngin hugsanlega betri kostur. Sniðugt er að leggja af stað um 10 leytið, því við förum ekki sérstaklega hratt yfir í færð sem þessari og það skiptir svolitlu máli að vera kominn að Dimmuborgum klukkan 12. Við fylgjum þjóðvegi eitt alla leið að Mývatnssveit en keyrum svo sunnan við vatn að Skútustöðum til þess að virða fyrir okkur fyrsta áfangastaðinn á rúntinum þessa vikuna, sem við komum að eftir um klukkutíma keyrslu. Að sjálfsögðu keyrum við fram hjá Goðafossi á leiðinni, svo þeir sem ekki virtu hann fyrir sér nýlega geta lengt ferðina eilítið og farið að skoða hann, hann er afskaplega fallegur í vetrarbúningnum.

Goðafoss í vetrarbúning. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Skútustaðagígar

Fyrsti staðurinn sem við stoppum á eru Skútustaðagígar. Um er að ræða einn af vinsælustu ferðamannastöðum á norðurlandi og ekki af ástæðulausu. Skútustaðagígar eru röð gervigíga. Við á Íslandi erum nú frekar vön gervigígum og þó þeir séu vissulega fallegt fyrirbæri finnst mörgum okkar þeir nú heldur hversdagslegir. Svo er það þó ekki fyrir túristanum, vegna þess að gervigíga er einunigs að finna á Íslandi og á Hawaii eyjum, en hvergi annars staðar í heiminum. Á þessum árstíma getum við hins vegar notið þeirra án þess að vaða í gegnum hópa af ferðamönnum, svo þetta er tilvalið tækifæri til þess að stoppa í hálftíma og ganga í rólegheitum göngustíginn meðfram gígunum.

Skútustaðagígar. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Höfði

Næst förum við að Dimmuborgum, sem ekki eru nema 15 mínútna akstur frá Skútustaðagígum. Á leiðinni er ýmsa hluti að sjá og er tilvalið að staldra við hjá Höfða og skoða náttúruna þar. Fallegt útsýni er frá bílastæði sem blasir við okkur á vinstri hönd mitt á milli Skútustaðagíga og Dimmuborga.

Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Dimmuborgir

Þegar við komum að Dimmuborgum getum við gengið þar um eins lengi og okkur sýnist. Hafa ber í huga að kaffihúsið hér, Kaffi Borgir, lokar klukkan 14:00 yfir vetrartímann, svo það er góð hugmynd að sækja sér kaffibollann áður en gengið er af stað.

Hins vegar má benda hér á eitt: Ef börnin eru höfð með á rúntinn í þetta sinn er mjög góð hugmynd að vera kominn hingað um klukkan 12, eða þá klukkan 11 ef við lögðum sérlega snemma af stað. Þetta er vegna þess að heyrst hefur að jólasveinarnir sjálfir muni vera hér á stjá á morgun á milli 11 og 12 og á milli 12 og 13. Frekari upplýsingar og miða á viðburðinn er hægt að finna með því að smella hér.

Dimmuborgir í vetrarbúning. Ljósmynd: Umhverfisstofnun

Frjáls tími

Næsta stopp okkar á rúntinum þessa vikuna er að skella okkur í jarðböðin, en við viljum koma þangað stuttu fyrir 16:00, kannski um hálf fjögur. Því höfum við eflaust um tvo til þrjá klukkutíma til þess að drepa þangað til við þurfum að koma okkur þangað. Tilvalið er að hver og einn nýti þennan tíma til þess að skoða eitthvert af undrum Mývatnssveitar sem viðkomandi á eftir að skoða. Hér eru nokkrar hugmyndir:

  • Víti í Kröflu – Ef að færi leyfir er tilvalið að skoða Víti. Víti í Kröflu er virkilega flottur sprengigígur, rétt innan af Kröfluvirkjun.
  • Sturtan – Á sama vegi, áður en komið er að Kröfluvirkjun, er að finna mjög undarlegt fyrirbæri. Á hægri hönd er lítið malarplan, þar sem dularfull sturta stendur og dælir út heitu vatni allan sólarhringinn. Það sem gerir sturtuna sérstaklega athyglisverða er að enginn á svæðinu vill taka ábyrgð á því að hafa sett hana upp. Sumar kenningar segja að hún sé sérkennilega skrýtin en þó náttúruleg birtingarmynd jarðhitans á svæðinu. Landinn gerði skemmtilegt innslag um sturtuna á síðasta ári sem má finna með því að smella hér.
  • Hverir – Hverasvæðið við Námaskarð er ótrúlegt jarðhitasvæði þar sem er að finna fjölmarga gufuhveri og leirhveri. Sumir kannast eflaust helst við svæðið vegna eggjalyktarinnar sem sest í bílinn þegar keyrt er þar fram hjá á leið austur á firði eða til Egilsstaða.
  • Fuglasafn Sigurgeirs – Norðan við vatn er að finna ótrúlegt safn, Fuglasafn Sigurgeirs, sem er opið á milli klukkan 14 og 16 og hentar því fullkomlega í okkar tímaramma.
  • Svo mætti áfram lengi telja
Hverasvæðið við Námaskarð. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Jarðböðin

Við ætlum að klára rúntinn okkar eins og svo oft áður með því að dýfa okkur í bað. Flestir Norðlendingar hafa eflaust notið þess áður að slaka á í Jarðböðunum við Mývatn, en þessa helgina verður heimsóknin líklegast ekki eins afslappandi og oft áður. Hér munum við nefnilega hitta á vini okkar jólasveinana aftur. Klukkan 16:00 munu þeir taka sitt árlega bað hér í Jarðböðunum og fylgir því yfirleitt alls konar læti og fíflagangur. Frekari upplýsingar og miða á viðburðinn er hægt að finna með því að smella hér.

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Eftir baðið höldum við svo heim á leið, sátt eftir langan en skemmtilegan og jólalegan dag í Mývatnssveit. Aksturinn aftur á Akureyri mun taka um það bil klukkutíma og korter. Mætti þá reikna með að vera að koma heim um 7 leytið, semsagt einmitt í tæka tíð fyrir kvöldmat.

Þannig hljóðar laugardagsrúnturinn þessa vikuna. Eins og áður segir er hver laugardagsrúntur einungis ætlaður til að veita okkur innblástur til að skoða betur nærumhverfið. Ekkert við ferðaplanið er heilagt. Kannski veist þú um skemmtileg aukastopp á leiðinni. Kannski nennir þú ekki öllum rúntinum en vilt endilega skella þér á bara eitt af stoppunum. Kannski viltu byrja fyrr eða seinna eða gera hann öfugt. Það eina sem við hjá Kaffinu vonumst til er að laugardagsrúnturinn hafi hvatt þig til þess að skoða nærumhverfið betur og vonandi gátum við gefið þér einhverjar hugmyndir.

Sambíó

UMMÆLI