Laugardagsrúnturinn: Perla Eyjafjarðar

Laugardagsrúnturinn: Perla Eyjafjarðar

Við Akureyringar erum mjög heppin að búa á ótrúlegu svæði. Hér eru náttúrufegurð, mannlíf og einstakar upplifanir að finna allt í kring. Flest erum við þó ekki nógu dugleg að nýta okkur þessar perlur í nærumhverfinu. 

Laugardagsrúnturinn er vikulegur pistill hér á Kaffinu sem ætlað er að veita bæði einstaklingum og fjölskyldufólki innblástur fyrir stuttar dagsferðir í nágrenni við Akureyri. Á hverjum föstudegi birtist hér grein með ferðalýsingu sem tekur mið af opnunartímum, veðurfari og öðrum þáttum fyrir komandi laugardag. Þannig getur hver lesandi fylgt þeirri ferðalýsingu með sínum vinum og fjölskyldu á laugardeginum, eða valið og hafnað úr henni eftir því hvað vekur áhuga hvers og eins.

Laugardagsrúnturinn þessa vikuna ber nafnið „Perla Eyjafjarðar,“ í höfuðið á áfangastað okkar í dag: Hrísey. Hrísey er oft kölluð perla Eyjafjarðar vegna fegurðar sinnar og ber það nafn með rentu. Akureyringar ættu að þekkja Hrísey vel, enda er eyjan hluti af Akureyrarbæ og eyjaskeggjar því Akureyringar sjálfir. Á sumrin er hér ótal margt að gera og hafa margir Akureyringar gert sér glaðan dag með ferð út í Hrísey að sumri til, sama hvort það er til að mæta á Hríseyjarhátíðina frægu eða bara til þess að njóta náttúru, útivistar og mannlífs á venjulegum sumardegi. Það sem færri hafa gert, sér í lagi þeir sem ekki eiga fjölskyldu né vinatengsl í eyjunni, er að njóta fegurðinnar sem þessi staður skartar að vetri til.

Hvað skal hafa með: Sundföt, hlýr fatnaður, góðir göngu-/kuldaskór.

Áætlaður ferðatími: 7 til 8 klukkutímar.

Erfiðleikastig: Sveigjanlegt (Meðal til frekar erfið eftir gönguleið, mjög auðveld án gönguleiðar).

Haldið af stað

Við leggjum af stað frá Akureyri 15 til 20 mínútur í 11. Aksturinn út á Árskógssand, þar sem við höldum um borð í ferjuna, mun taka okkur hálftíma. Við gefum okkur þó þessar 45 til 50 mínútur (við ætlum að ná ferjunni sem fer klukkan 11:30), því búast má við hálku á leiðinni á morgun, auk þess sem það eru ekki góðir mannasiðir að mæta á síðustu stundu.

Sævar

Við leggjum bílnum við höfnina og stígum um borð í Hríseyjarferjuna Sævar, sem fer af stað klukkan 11:30 frá Árskógssandi og tekur ferðin u.þ.b. 15 mínútur. Siglingin sjálf er ein af mörgum ástæðum til þess að leggja í þennan laugardagsrúnt. Það er jú algjör minnihluta Íslendinga sem býr í Hrísey, Grímsey eða Vestmannaeyjum og/eða vinna á sjó, svo flest okkar hafa afar sjaldan tilefni til þess að fara í siglingu. Ef veður leyfir skulum við nýta tækifærið og standa úti á meðan ferjan siglir og njóta þess að sjá fallega Eyjafjörðinn okkar frá öðru sjónarhorni.

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Áfram gakk

Þegar hingað er komið er klukkan að ganga 12. Sundlaugin og verslunin opna ekki fyrr en klukkan 13, en við sitjum ekki bara aðgerðarlaus og bíðum, heldur ætlum við að njóta eynnar með því að ganga eina af ýmsum gönguleiðum um hana. Kort og lýsingar á leiðunum er hægt að skoða með því að smella hér en við hjá Kaffinu mælum með tveim þeirra á þessum árstíma: Grænu og bláu.

Græna leiðin á þessum árstíma er fyrir þá sem eru til í aðeins meiri göngu og hugsanlega að troða snjó. Ekki er þó um neina fjallgöngu að ræða og ættu flestir lesendur að ráða við leiðina. Hún tekur okkur út fyrir þorpið og upp á eyjuna þar sem við sjáum ósnortna náttúru, Orkulindina frægu, listaverkið Yggldrasil og fleira.

Bláa leiðin er aðeins einfaldari að því leitinu til að stærri hluti hennar felst í því að ganga um hellulagðar, malbikaðar eða malargötur, þ.e.a.s. vegi sem gerðir eru fyrir bílaumferð, þó ekki ætti að búast við mörgum bílum á ferðinni úti í Hrísey. Þessi leið tekur okkur út fyrir þorpið vestan megin og við sjáum kirkjugarðinn, flugvöllinn, fuglaskoðunarhúsið við Lambhagatjörn og margt fleira.

Ljósmynd: hrisey.is

Að sjálfsögðu er líka sá möguleiki að ganga bara eins og okkur sjálfum sýnist og skoða þetta fallega þorp. Sama hvaða leið við göngum getum við búist við að vera að ganga um í einn til tvo klukkutíma.

Hríseyjarbúðin

Lengi hefur verslun verið starfrækt í Hrísey og af hinum ýmsu aðilum. Verslunin sem nú er til staðar í eynni heitir Hríseyjarbúðin og er í eigu Eyjaskeggja sjálfra. Hríseyjarbúðin er ein af fáum verslunum sem eftir eru af gamla skólanum: Sjálfstæð verslun í smáþorpi sem hefur allt til alls up á að bjóða. Hér setjumst við niður og fáum okkur kaffi til þess að hlýja okkur upp eftir göngutúrinn.

Ljósmynd: hrisey.is

Stingum okkur í sund

Næst trítlum við frá búðinni, framhjá kirkjunni fallegu og húsi Hákarla Jörundar sem eru bæði þess virði að staldra við og virða þua fyrir sér, yfir að sundlauginni og stingum okkur í sund. Höfum það í huga að sundlaugin lokar klukkan 16 á laugardögum, svo við megum ekki slóra allt of mikið við gönguna ef við ætlum að hafa góðan tíma til að slaka á í heita pottinum. Talandi um heita pottinn, þá hefur heiti potturinn í sundlauginni í Hrísey eitt allra besta útsýni sem fyrirfinnst í íslenskri sundlaug. Lesendur sem gerðu sér ferð til Hofsóss á síðasta Laugardagsrúnti þurfa sjálfir að ákveða hvor laugin hefur betra útsýni, en samkeppnin er stíf þar á milli. Frá sundlauginni sjáum við fegurð Eyjafjarðar með sögulega félagsheimilið Sæborg í forgrunni.

Ljósmynd: hrisey.is

Haldið heim

Eftir því hversu snögg við vorum í göngutúr og hversu lengi við stöldruðum við í búðinni og í sundi, þá stígum við aftur um borð í ferjuna annað hvort klukkan 15:00 eða 17:00. Ef við gleymum okkur alveg í að skoða fegurð eyjunnar skal hafa í huga að síðasta áætlunarferð í land fer frá bryggju klukkan 21:00. Síðan keyrum við heim. Ef við viljum gera okkur alveg sérstaklega glaðan dag getum við að sjálfsögðu heimsótt Bjórböðin fyrst við erum á Árskógssandi.

Þannig hljóðar laugardagsrúnturinn þessa vikuna. Því er ekki hægt að neita að það er að jafnaði meira um að vera í Hrísey á sumrin en á veturna, en við hjá Kaffinu vildum endilega koma því á framfæri hversu fögur þessi eyja er í vetrarbúningi. Hver veit nema Laugardagsrúnturinn haldi aftur til Hríseyjar að vori. Eins og áður segir er hver laugardagsrúntur einungis ætlaður til að veita okkur innblástur til að skoða betur nærumhverfið. Ekkert við ferðaplanið er heilagt. Kannski veist þú um skemmtileg aukastopp á leiðinni. Kannski vilt þú eyða styttri tíma í Hrísey eða lengri, kannski viltu fara í pottana á Hauganesi eða í sund á Þelamörk á heimleiðinni. Kannski viltu byrja fyrr eða seinna sleppa Hrísey og bara heimsækja Árskógssand. Það eina sem við hjá Kaffinu vonumst til er að laugardagsrúnturinn hafi hvatt þig til þess að skoða nærumhverfið betur og vonandi gátum við gefið þér einhverjar hugmyndir.

UMMÆLI