Prenthaus

Leigubílastöð BSO ekki í nýju miðbæjarskipulagi AkureyrarbæjarSkjáskot: RÚV

Leigubílastöð BSO ekki í nýju miðbæjarskipulagi Akureyrarbæjar

Ekki er gert ráð fyrir leigubílastöð BSO í miðbæ Akureyrar í nýju miðbæjarskipulagi bæjarins en óvíst er hvað verður um þetta sögufræga hús. Samkvæmt nýja skipulaginu þarf húsið að víkja og Bifreiðastöð Oddeyrar hefur frest til áramóta til að flytja starfsemina annað. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í gær.

Leigubílstjórar á Akureyri vilja vera áfram í húsinu sem var tekið í notkun fyrir rúmum 65 árum, þann 16. febrúar árið 1956.

„Við erum svosem ekkert ánægðir með það að fara héðan. Þetta er góð staðsetning á miðbæjarsvæðinu. Við viljum helst vera á miðbæjarsvæðinu, en við vitum það að við erum fyrir miðbæjarskipulaginu. Og við vonum bara að við náum farsælli lendingu við Akureyrarbæ í því máli,“ segir Gylfi Ásmundsson, stjórnarformaður BSO, í samtali við fréttastofu RÚV. Hann segir að vonandi finnist einhver lausn en önnur aðstaða hafi ekki boðist enn sem komið er.

Rætt var við Hönnu Rósu Sveinsdóttur, sérfræðing á Minjasafninu á Akureyri á RÚV í gær en hún telur eftirsjá af húsinu sem hefur verið stór hluti af bæjarmynd Akureyrar og bæjarbragnum.

„Varðveislugildi hússins má segja að sé fyrst og fremst fólgið í menningarsögu þess og tengsl þess við sögu bæjarins. Bæði atvinnusöguna og þeirra bílstjóra sem voru hér og voru hér í tugatali þegar mest var. Og svo náttúrulega bara hluti af bæjarbragnum,“ segir hún.

UMMÆLI