Leikfélag Menntaskólans á Akureyri setur upp sýningu á Lovestar

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri tilkynnti á dögunum um val á sýningu sem það mun setja upp skólaárið 2017-2018. Verkið Lovestar eftir Andra Snæ Magnason varð fyrir valinu. Bókin Lovestar kom út árið 2002.

Verkið verður sett upp í leikstjórn Einars Aðalsteinssonar og Ívan Árni Róbertsson verður aðstoðarleikstjóri en Ívan stundaði áður nám við Menntaskólann á Akureyri. Nemendur skólans fara með störf danshöfundar og tónlistarstjóra. Þær Una Haraldsdóttir og Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir munu sjá um tónlistina og Sylvia Sig Gunnarsdóttir og Petra Reykjalín um dansinn.

Sjá einnig:  LMA sýnir í Hofi næsta vetur

Prufur fyrir hlutverk í sýningunni verða haldnar í næstu viku dagana 23.-27. október. Frumsýning á verkinu verður svo 9. mars næstkomandi. Sýningin verður í Hofi en þetta er í fyrsta skipti sem leikfélagið sýnir þar.

Í tilkynningu frá Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri segir: „Við erum mjög spennt að takast á við þetta krefjandi, fjöruga og spennandi verkefni með nemendum MA og öllum þeim sem koma að verkinu og hvetjum alla nemendur til að mæta í prufur því þetta er ótrúlega skemmtilegt.“


UMMÆLI