Leikskólabörn á Akureyri unnu hugverkasamkeppni jafnréttisnefndar

Leikskólabörn á Akureyri unnu hugverkasamkeppni jafnréttisnefndar

Leikskólabörn í Bergi á leikskólanum Tröllaborgum á Akureyri báru sigur úr býtum í hugverkasamkeppni sem jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands (JAKÍ) stóð fyrir. Keppt var í fimm ólíkum flokkum eftir aldursstigum allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Börnin á Bergi í Tröllaborgum eru fædd 2015 og 2016. Verkið þeirra kallast Blær og fjallar um líkamsvirðingu.

Umsögn dómnefndar var svohljóðandi:

Blær er einstaklingur sem leikskólabörnin mótuðu, allt frá því að setja fram beinagrindina til eiginleika og útlits. Verkefnið hefur fjölþætta nálgun, er vandað og sýnir fagmennsku kennara og áhuga barnanna í skýru ljósi. Hér er verkefni sem sýnir hvernig byggja má upp samtal í gegnum reynslumiðað nám og þekkingarleit um kynin, margbreytileika og félagsmótun. Hér hefur kennari í samtarfi við nemendur nýtt einstakt tækifæri til að ræða staðal – og kynjamyndir, eins og kemur fram „Í þeirra huga var ekkert eðlilegra en að tvö kyn væru saman í einum líkama“. Það er hvetjandi að sjá hvernig vinna má með kynjasjónarmiðin með okkar yngsta fólki og taka dómarar heilshugar undir lokaorð samantektar með verkefninu, framtíðin er björt!

Kennarar sem voru með leikskólabörnunum af Tröllaborgum voru Sigríður Fossdal, Rut Viktorsdóttir, Óli Steinar Sólmundarson, Lovísa Jónsdóttir og Berglind Róbertsdóttir.

Hér er að finna nánari upplýsingar um verkefni barnanna á Tröllaborgum.

Sambíó

UMMÆLI