Leikskólinn Iðavöllur á Akureyri er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2025 fyrir ötult, fjölbreytt og faglegt þróunarstarf, frumkvæði og metnað.
Sjá einnig: Hjördís Óladóttir tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2025
Viðurkenningarráð Íslensku menntaverðlaunanna hefur tilkynnt hver hljóta tilnefningu til verðlaunanna í ár. Þetta er í sjötta skipti sem verðlaunin eru veitt eftir að þau voru endurreist 2020. Iðavöllur er tilnefndur í flokku framúrskarandi menntastofnanna.
Hér að neðan má sjá rökstuðning viðurkenningaráðs í heild
Í leikskólanum Iðavelli eru rúmlega 104 börn í fimm deildum. Skólinn er kunnur fyrir stöðuga viðleitni starfsfólks til að efla starfið, sem byggir á hugmyndafræði Reggio Emilia og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Reggio Emilia er leikskólastefna þar sem sérstök áhersla er lögð á barnmiðað nám þar sem börn eru virk í eigin þekkingarleit í gegnum leik, sköpun og rannsóknir. Kennarar eru samverkamenn barnanna og litið er á umhverfið sem þriðja kennarann.
Á Iðavelli er fjölmenningarlegt samfélag og mikil áhersla er lögð á mál og málörvun til að styrkja grunn barna til náms og þroska, sem og á traust og jákvæð samskipti við fjölskyldur barnanna. Einkunnarorð Iðavallar eru Þar er leikur að læra. Í þeim kristallast einkenni leikskólans – að læra gegnum leikinn. Gildi skólans eru Virðing – Sköpun – Vellíðan sem vísa í fjölmenninguna, sköpunarsmiðjur í anda Reggio og það aðalmarkmið að öllum líði vel í leikskólanum.
Á undanförnum árum hefur starfsfólk skólans undirbúið og hleypt af stokkunum fjölda árangursríkra þróunarverkefna. Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu skólans til Íslensku menntaverðlaunanna var honum lýst sem lifandi lærdómssamfélagi. Þróunarverkefnin eru fjölbreytt; efling samstarfs við foreldra, að gera leikskólastarfið sýnilegra, efla sjálfstraust og hlúa að félagsfærni barnanna, leggja grunn að lestrar-, ritunar- og stærðfræðinámi barnanna, þróa útinám, efla jafnréttisvitund barna og starfsfólks og koma betur til móts við nemendur og foreldra af erlendum uppruna. Starfsfólk Iðavallar hefur verið til fyrirmyndar við að deila þeirri þekkingu og reynslu sem þar hefur orðið til með öðrum skólum og þykja þau verkefni sem þar hafa verið unnin hafa sýnt fram á mikilvægi nýsköpunar og stöðugrar endurskoðunar á starfsháttum í leikskóla.
Um þessar mundir tekur starfsfólk skólans þátt í verkefni með þremur öðrum leikskólum sem ber heitið Stilla – hæglátt leikskólastarf. Verkefnið snýst um að skoða tíma, leik og menntun í leikskólanum og hvernig hægt er að þróa hæglátt leikskólastarf sem gefur börnum og kennurum tíma til dýpra náms og ígrundunar. Iðavöllur vinnur að þessu verkefni í samvinnu við leikskólana Aðalþing í Kópavogi, Rauðhól í Reykjavík og Ugluklett í Borgarnesi, sem og við kennara við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.
Úr umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu:
Þróunarstarf Iðavallar og sú hefð skólans að vinna í lærdómssamfélagi hefur orðið til þess að í skólanum ríkir fagmennska, virðing og góður skólabragur. Stjórnendur og starfsfólk skólans eiga skilið viðurkenningu fyrir frumkvæði og metnað til að gera sífellt betur, vilja til að aðlaga leikskólastarfið að þeim börnum og fjölskyldum sem sækja skólann hverju sinni og lausnamiðaðs viðhorfs í starfi. Einnig er vert að nefna framúrskarandi vinnu með tví- og fjöltyngdum börnum og fjölskyldum þeirra en skólinn hefur tekið á móti fjölda skóla víðsvegar af landinu og verið leiðandi þegar kemur að málörvun og samstarfi við fjölskyldur.


COMMENTS