Elís Orri Guðbjartsson skrifar

N4 Sjónvarp er eini fjölmiðill landsins, utan netmiðla, sem er með höfuðstöðvar sínar og ritstjórn utan höfuðborgarsvæðisins. Það má því með sanni segja að hann sé eins konar „landsbyggðar-fjömiðill“, og þarf því ekki að koma á óvart að landsbyggðirnar séu í öndvegi.

Til að gefa ykkur ákveðna mynd af dagskrárgerðinni á N4, þ.e. ef þið stillið ekki reglulega inn, má með sanni segja að ef að sjónvarpsstöðin væri starfsmaður á RÚV væri hún án nokkurs vafa Gísli Einars. Og ef hún væri á Stöð 2 þá væri hún Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Stefnubreytingin á N4

Ég er dyggur aðdáandi N4 og þáttanna sem þeir eru sýndir, þó þeir séu vissulega misgóðir. Oft og tíðum eru þeir þurrir og fyrirsjáanlegir, þó viðfangsefnið hljómi áhugavert við fyrstu heyrn. Að mínu mati hefur nefnilega vantað þennan X-faktor. Það gæti þó haft eitthvað með það að gera að ég er undir þrítugu og meðalaldur áhorfanda er líklega a.m.k. tvöfalt hærri.

Þess vegna varð ég mjög ánægður þegar ég varð var við ákveðna stefnubreytingu á sjónvarpsrásinni fyrir skömmu. Það er alveg augljóst að ferskir vindar blása um stöðina og stöðin er hægt og rólega að sækja í sig veðrið. Og fyrir norðan er líka þessi rjómablíða!

Lengri leiðin

Í fyrsta skiptið í mörg ár var þáttur á dagskrá á N4 þar sem ég þurfti ekki að pína vini mína til að horfa með mér. Vissulega spilaði það inn í að þættirnir fjölluðu um íslenska karlalandsliðið í fótbolta og leiðina á HM, en útfærslan á þáttunum og hvernig þeir voru matreiddir var til mikillar fyrirmyndar.

Þátturinn Lengri leiðin fjallaði um leikmenn landsliðsins sem eru „utan af landi“, þ.e. eru ekki frá Stór-Reykjavíkursvæðinu. Í þáttunum er talað við vini og vandamenn leikmannanna átta sem koma frá landsbyggðunum og fjallað um æsku þeirra og uppvaxtarár, styrkleika þeirra jafnt sem veikleika og þeir sýndir í nýju ljósi. Frábær nálgun á frábæru umfjöllunarefni, sem heppnaðist gríðarlega vel.

Vakti þátturinn t.a.m. það mikla athygli að Hjörvar Hafliðason, sparkspekingar á Stöð 2 Sport, skrifaði færslu á Twitter þar sem hann jós þættina lofi.

Ákall til N4: Haldið þessu áfram!

Lengri leiðin er besti þáttur sem ég hef séð á N4. Það er virkilega gaman að sjá að það virðist vera ákveðinn uppgangur á stöðinni núna og ég vona að muni sjá fleiri þætti af sama kalíberi og Lengri leiðina á skjánum á komandi mánuðum.

Smelltu hér til þess að horfa á Lengri leiðina