Líkamleg, andleg og félagsleg heilsa eldra fólks

Líkamleg, andleg og félagsleg heilsa eldra fólks

Elma Eysteinsdóttir skrifar

Í framhaldi af síðustu skrifum mínum þá langar mig að deila vangaveltum mínum varðandi félagsleg tengsl og hreyfingu eldra fólks. Ég hef séð um leikfimi fyrir 60 ára og eldri á Bjargi síðustu fjögur árin en hóparnir mínir eru þrír og samanstanda af einstaklingum á bilinu 60-83 ára. Það leynir sér ekki hversu mikið það gefur fólki á þessum aldri að mæta á staðinn og vera hluti af hópi á sama tíma og þau rækta líkama og sál. Margir eða flestir mæta til að hreyfa sig til bættrar heilsu en hluti af hópnum mætir aðallega út af félagsskapnum sem þau fá fyrir tímann, í tímanum og eftir hann, þegar þau taka kaffisopann sinn já eða í pottinum eftir tímann. 

Sjá einnig: Íþróttaiðkun barna og unglinga

Ég hef heyrt setningar eins og „guð hvað er gott að tala aftur, ég hef ekki rætt við neinn í þrjá daga”. Svona setningar hlýja verulega en á sama tíma verð ég sorgmædd. Hraðinn er orðinn svo mikill í nútímasamfélagi að eldra fólkið einangrast sífellt meira. Þetta er fólkið sem hefur þjónað okkur og nú er komið að okkur að standa vaktina fyrir þau. Ég hef alltaf sagt að það séu forréttindi að fá að þjálfa fólk á þessum aldri. Það er svo gefandi að sjá bætta líðan hjá einstaklingum sem búast yfirleitt ekki við að finna framfarir á þessum aldri. 

Framboð af félagsstarfi og hreyfingu

Árið 2005 voru íbúar á Akureyri 60 ára og eldri 2.669 eða um 16,1% bæjarbúa. Þann 1. janúar 2021 taldi þessi hópur 4.172 einstakling eða 21,7% bæjarbúa. Samkvæmt mannfjöldaspám stækkar þessi hópur hlutfallslega mjög mikið á næstu árum. 

En er nægilegt framboð af félagsstarfi og hreyfingu fyrir allt þetta fólk og finna allir eitthvað við sitt hæfi? Að mínu mati ætti Akureyrarbær að setja kraft í að koma af stað meira framboði af hreyfingu fyrir þennan hóp. 

Það er ekki allra að mæta á líkamsræktarstöð þar sem námskeiðin fara fram og því er það afar mikilvægt að koma af stað fjölbreyttara úrvali af hreyfingu fyrir 60 ára og eldri. Það má til dæmis hugsa sér óformlegri hópa sem myndu hittast utandyra. Ég veit að það hafa verið vangaveltur um að stóru íþróttafélögin setji af stað prógram fyrir 60 ára og eldri og vona ég að sú vinna haldi áfram. 

Sund og sundleikfimi er hreyfing sem hentar afar vel og veit ég að það eru einhverjir hópar starfandi í bænum en það er sennilega pláss fyrir fleiri. Við hjá L-listanum viljum huga vel að eldra fólkinu okkar og skapa því betri heilsu og meiri gleði eftir starfslok. 

UMMÆLI