Listasafnið á Akureyri: Ný árbók og endurnýjaður samstarfssamningur

Listasafnið á Akureyri: Ný árbók og endurnýjaður samstarfssamningur

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í vikunni var dagskrá ársins 2022, ný árbók og komandi starfsár kynnt. Einnig var undirritaður nýr samstarfssamningur við Norðurorku og skrifuðu Hlynur Hallsson, safnstjóri, og Gunnur Ýr Guđmundsdóttir, verkefnastjóri, undir samninginn. Árbók safnsins er nú öllum aðgengileg og gjaldfrjáls í anddyri safnsins auk valdra staða á Akureyri og víðar. 


„Eflir barna- og fjölskyldustarf Listasafnsins“

Samningur Listasafnsins og Norðurorku nær til næstu fimm ára og er mikið fagnaðarefni að sögn Hlyns Hallssonar, safnstjóra: „Það gleður okkur mjög að eiga svona góðan styrktaraðila eins og Norðurorku, enda hefur þetta samstarf verið farsælt síðustu árin. Sem fyrr beinist það sérstaklega að barna- og fjölskyldustarfi og með þessum nýja fimm ára samningi gefst okkur svigrúm til þess að gera langtímaáætlanir og efla starfið enn frekar.“

Sýningaárið 2022 hófst síðastliðinn laugardag

Sýningaárið 2022 hófst formlega síðastliðinn laugardag þegar samsýningin Nánd var opnuð. Þar sýna sex alþjóðlegir myndlistarmenn og er athyglinni beint að innri rökfærslum listmálunar sem eru staðsettar, skuldbundnar og innbyggðar. Síðan rekur hver sýningin aðra og á meðal myndlistarmanna ársins eru Gústav Geir Bollason, Kristinn G. Jóhannsson, Auður Lóa Guðnadóttir, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Egill Logi Jónasson, Rebekka Kühnis, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverár, Páll Stefánsson og Spessi. Einnig verða fastir liðir á dagskrá eins og A! GjörningahátíðSköpun bernskunnar og nemendasýningar VMA og Myndlistaskólans.


Allt til enda

Þriðjudagsfyrirlestrarnir hófu að nýju göngu sína í síðustu viku og verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins, en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarfélagið, Menntaskólann á Akureyri og Gilfélagið. Þeir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Listsmiðjur undir yfirskriftinni Allt til enda verða á dagskrá í mars, apríl og maí undir leiðsögn Jóns Ingibergs Jónsteinssonar, Magnúsar Helgasonar og Þykjó – Sigurbjargar Stefánsdóttur og Ninnu Þórarinsdóttur. Aðrar fjölbreyttar smiðjur verða einnig í boði á árinu.

UMMÆLI