NTC netdagar

Listasafnið á Akureyri: Þriðjudagsfyrirlestur – Ýr Jóhannsdóttir 

Listasafnið á Akureyri: Þriðjudagsfyrirlestur – Ýr Jóhannsdóttir 

Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 17-17.40 heldur Ýr Jóhannsdóttir, textílhönnuður og myndlistarkona, fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur ársins undir yfirskriftinni Kynning á verkefnum Ýrúrarí. Aðgangur er ókeypis. 

Á fyrirlestrinum fer Ýr yfir ýmis verk og verkefni sem hún hefur unnið að undir nafninu Ýrúrarí. Verkin einkennast af húmor og leikgleði sem lífga upp á hversdaginn þar sem gamlar flíkur öðlast nýtt líf sem gangandi listaverk. Meðal annars verður farið yfir verkefnin Peysa með öllu, sem unnið var í samstarfi með fatasöfnun Rauða Krossins, PizzaTime með stúdíó Fléttu, sem vann Hönnunarverðlaun Íslands fyrir verk ársins 2023, sýninguna Nærvera frá 2023, skapandi fataviðgerðarsmiðjur og fleiri verkefni af ferlinum. 

Ýr Jóhannsdóttir lærði textílhönnun í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Glasgow School of Art og kláraði meistaranám í listkennslu við Listaháskóla Íslands haustið 2021. Prjónaverk Ýrúrarí hafa m.a fengið umfjöllun á Vogue.com, Colossal, Dezeen og fleiri miðlum. Einnig má finna verk Ýrar í safneign The National Museums of Scotland, Textiel Museum, Museum fur Kunst und Gewerbe, International Folk Museum og Hönnunarsafni Íslands. Auk þess hafa verk eftir Ýri verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Hönnunarsafni Íslands, Nordatlantens brygge og Smithsonian Design Museum. Nokkur verk leynast einnig í einkaeign listafólksins Erykah Badu, Wayne Coyne, Miley Cyrus og Noel Fielding. 

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Sanna Vatanen, textílhönnuður, Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, safnfræðslufulltrúi, Guðrún Hadda Bjarnadóttir, handverks- og myndlistarkona, Joris Rademaker, myndlistarmaður, Pablo Hannon, hönnuður og listamaður, Donat Prekorogja, myndlistarmaður, og Egill Logi Jónasson, myndlistarmaður.

UMMÆLI