Gæludýr.is

Listasafnið á Akureyri verður opnað aftur 4. maí

Listasafnið á Akureyri verður opnað aftur 4. maí

Listasafnið á Akureyri verður opnað aftur 4. maí næstkomandi eftir lokun undanfarnar vikur vegna Covid-19. Fjöldatakmörkun gesta verður miðuð við 50 manns og þeir hvattir til að fylgja tilmælum Almannavarna sem kveða á um tveggja metra fjarlægðartakmarkanir.

Í ljósi aðstæðna verða sýningarnar Línur og Sköpun bernskunnar 2020 framlengdar. Sú fyrrnefnda til 10. maí, en hin síðarnefnda til 17. maí. Auk þess verður sýningin Handanbirta / Andansbirta framlengd til 24. maí.  Fjórar aðrar sýningar halda einnig áfram í safninu. Opið verður alla daga í sumar kl. 12-17 og enginn aðgangseyrir verður innheimtur í maí.

Starfsemi Listasafnsins mun taka mikinn fjörkipp þann 6. júní næstkomandi þegar fimm nýjar sýningar verða aðgengilegar gestum. Þá gefur að líta einkasýningar Brynju Baldursdóttur, Sjálfsmynd, Heimis Björgúlfssonar, Zzyzx, Jónu Hlífar Halldórsdóttur, Meira en þúsund orð, Snorra Ásmundssonar, Franskar á milli, auk íslensku/finnsku samsýningarinnar Hverfandi landslag.

Eftir að samkomubann var sett á hefur Listasafnið á Akureyri verið mjög líflegt á samfélagsmiðlum með myndbirtingum af verkum og innslögum um sýningar og er sú þjónusta safnsins komin til að vera. Notast er við myllumerkin #safniðísófann og #listaverkdagsins auk #listak. Á undanförnum vikum hefur einnig staðið yfir vinna við hlaðvarp þar sem starfsmenn Listasafnsins ræða við sýnendur og aðra tengda aðila. Stefnt er að því að fyrsti þátturinn fari í loftið á næstu tveimur vikum og verði aðgengilegur á heimasíðu safnsins sem og völdum streymisveitum. Önnur nýbreytni sem verður tekin upp í sumar er ListAk póstkortið. En þá gefst gestum tækifæri á að láta ljós sitt skína og skapa sitt eigið póstkort og senda vinum og ættingjum. Kortið sjálft, frímerki ásamt litum af ýmsum toga verða aðgengileg í afgreiðslunni og á kaffihúsinu Kaffi & list sem staðsett er í anddyri safnsins.

Hefðbundin leiðsögn um sýningar hefst á nýjan leik fimmtudaginn 7. maí kl. 15 á íslensku og kl. 15.30 á ensku. Sem fyrr er hún innifalin í miðaverði. Þriðjudagsfyrirlestrarnir hefjast að nýju í haust og eru bundnar vonir við að hið sama gildi um fjölskylduleiðsögn, smiðjur, móttökur stærri hópa og fleira.    

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó