Lögreglufélög á Norðurlandi ósátt við stjórnsýslu ríkislögreglustjóra

Lögreglufélög á Norðurlandi ósátt við stjórnsýslu ríkislögreglustjóra

Stjórnir Lögreglufélags Eyjafjarðar og  Lögreglufélags Þingeyinga hafa lýst yfir stuðningi við stjórn Landssambands lögreglumanna og fagna frumkvæði dómsmálaráðuneytis frumkvæði dómsmálaráðuneytis og þrýstingi lögreglustjóra landsins á að alhliða stjórnsýsluúttekt fari fram á embætti ríkislögreglustjóra.

Í tilkynningu frá Lögreglufélögunum á norðurlandi segir að það sé ljóst að margt hafi verið athugavert við stjórnsýslu ríkislögreglustjóra undanfarin misseri.

„Samkvæmt lögum eru meginhlutverk ríkislögreglustjóra m.a. að sinna samræmingarhlutverki fyrir lögregluna og að veita margvíslega þjónustu við lögregluembættin, t.d. útvegun bíla og búnaðar. Ljóst er að margt hefur verið athugavert við stjórnsýslu ríkislögreglustjóra undanfarin misseri og þar má nefna yfirferð og endurnýjun verklagsreglna, fatamál, málefni fíkniefnahunda og stjórnenda þeirra sem og bílamálin sem mikið hafa verið til umfjöllunar. Á þetta hefur verið margbent af lögreglumönnum. Í því samhengi má t.d. vísa í ályktun frá síðasta landsþingi Landssambands lögreglumanna þar sem skorað var á dómsmálaráðuneytið að láta gera óháða úttekt á því hvort ekki megi færa verkefni sem ríkislögreglustjóri hefur með höndum frá embættinu og til annarra lögregluembætta,“ segir í tilkynningunni.

Á síðustu tveimur árum hefur stjórn Lögreglufélags Eyjafjarðar auk þess sent frá sér ályktanir þar sem lýst er þungum áhyggjum af mönnunarmálum sérsveitar ríkislögreglustjóra á Norðurlandi, en þar hefur engin breyting orðið.

„Stjórnir Lögreglufélags Eyjafjarðar og  Lögreglufélags Þingeyinga telja óþarfa af hálfu yfirstjórnar ríkislögreglustjóra að drepa á dreif umræðu um vanda ríkislögreglustjóra með því að benda á að heildarúttekt þurfi að fara fram á lögreglunni í landinu.  Við ítrekum að með stuðningsyfirlýsingu þessari er ekki verið að vega að hinum almenna starfsmanni ríkislögreglustjóra, heldur virðist okkur sem yfirstjórnun embættisins sé ekki sem skyldi. Við stöndum að baki Landssambandi lögreglumanna og þeim lögreglufélögum sem tjáð hafa sig um ofangreind málefni,“ segir einnig í tilkynningu frá lögreglufélögum á Norðurlandi. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó