Lundarsel og Stefanía Sigurdís hlutu jafnréttisviðurkenningar

Lundarsel og Stefanía Sigurdís hlutu jafnréttisviðurkenningar

Frístundaráð Akureyrarbæjar veitti sérstakar viðurkenningar vegna jafnréttismála þriðja árið í röð 17. júní síðastliðinn. Leikskólinn Lundarsel og Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir hlutu jafnréttisviðurkenningar Akureyrarbæjar í ár. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn fyrir utan Hlíð, sem hluti af fjölbreyttri og hátíðlegri dagskrá Þjóðhátíðardagsins á Akureyri.

Viðurkenningar eru veittar stofnun, fyrirtæki, nefnd eða ráði Akureyrarbæjar, einstaklingi eða félagi sem hefur að mati ráðsins staðið sig best við framgang jafnréttismála á Akureyri.

Að þessu sinni ákvað frístundaráð að veita viðurkenningar í tveimur flokkum, til stofnunar annars vegar og einstaklings hins vegar.

„Leikskólinn Lundarsel hefur unnið markvisst að kynjajafnrétti í sínu starfi sl. 10 – 12 ár og gegnir sérstakt jafnréttisráð mikilvægu hlutverki í skólanum. Stefna Lundarsels er að allir séu jafnir, kyn á aldrei að hamla, hefta eða loka á óskir. Kynjum er ekki stíað í sundur með þvingunum til að komast ofan í hefðbundinn kynjakassa heldur er börnunum bent á hvað þau eiga sameiginlegt sem einstaklingar. Sem dæmi má nefna að strákar fá að kynna sér hársnyrtiiðn og sjúkraliðabraut í heimsókn sinni til VMA og að sama skapi kynna stúlkur sér starfsemi námsbrauta þar sem karlar hafa verið í meirihluta eins og raf- og málmiðnabraut,“ segir á vef bæjarins.

Helga María Þórarinsdóttir tók við viðurkenningunni en hún hefur leitt jafnréttisstarfið á Lundarseli með miklum myndarbrag.

Í flokki einstaklinga hlaut Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir hvatningarverðlaun frístundaráðs. Hún sat í stjórn Femínistafélags MA og sinnti þeim störfum af krafti meðal annars með því að standa fyrir jafnréttisviku og fjölda annarra viðburða.

„Stefanía hefur tekið þátt í ráðstefnum um jafnrétti og leitt verkefni sem snúast um að afmá neikvæðar staðalímyndir. Hún hefur sýnt mikla þrautseigju í störfum sínum, haldið áfram þótt á móti hafi blásið og sinnt jafnréttismálum af einlægni og áhuga til að læra sífellt meira. Hún er ötul baráttukona, óhrædd við að koma skoðunum sínum á framfæri og leggur mikið upp úr samtali og fræðslu yngri kynslóða,“ segir á vef bæjarins.

Sambíó

UMMÆLI