Múlaberg

Mannsæmandi líf

Við viljum öll lifa mannsæmandi lífi. Orðabókin segir “sem sæmir mönnum, sómasamlegur”.

Konur eru menn. Flóttafólk er menn. Krabbameinssjúklingar eru menn. Öryrkjar, aldraðir… öll erum við menn. Hvað er sómi? Orðabókin segir heiður, sæmd. Sem aftur er náskylt virðingu.

Hver vill ekki geta borið virðingu fyrir sjálfum sér. Og virðing fæst ekki með því að vanvirða annað fólk. 
Í gamla daga var það algert neyðarúrræði að þurfa að þiggja aðstoð hreppsins. Hreppsómagi var lægstur í virðingarstiganum og hafði í raun engin réttindi. Tímarnir hafa breyst. Við eigum ekki að þurfa að skammast okkar fyrir það að þurfa aðstoð. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Við erum bara komin afskaplega stutt á veg hér á landi hvað þetta varðar.
Ég bjó í Danmörku þegar sonur minn veiktist af hvítblæði. Þar í landi var aldrei neinn vafi á að við sem foreldrar áttum rétt á að fá það sem við þurftum til að geta áfram lifað mannsæmandi lífi. Læknarnir sögðu að annað okkar yrði að hætta að vinna til að passa barnið og kerfið borgaði þá umyrðalaust 80% af þeim launum sem það foreldri sem hætti að vinna hefði fengið á vinnumarkaðinum. Það var aldrei spurning um að við þyrftum að leita til góðgerðarsamtaka eða neins slíks. Við áttum rétt á þessu, punktur og basta. 

Í Bandaríkjunum voru menn, þegar þrælahaldið var afnumið, ekki tilbúnir að greiða laun til þeirra sem höfðu verið þrælar. Nei, í stað launa var greitt þjórfé, sem var algerlega eftir geðþótta hvers og eins sem það greiddi. Lítil virðing í því. Og þetta kerfi þýðir ennþá að að fólk sem vinnur í starfsgreinum þar sem þjórfé tíðkast, það er oft á of lágum launum til að geta lifað af laununum. Kannski þetta hafi aldrei verið eins slæmt á Íslandi eins og t.d. Í Bandaríkjunum, en við íslendingar bjóðum mönnum upp á þau kjör að verða að leita til góðgerðasamtaka til að geta lifað af þegar þeir sjálfir eða börnin þeirra veikjast alvarlega.

Við viljum hafa jafnrétti. Við viljum ekki að neinn upphefji sig á kostnað annars. En víða er pottur brotinn. Vændi er dæmi um ójafnvægi. Það getur aldrei orðið jafnvægi í því þegar einn maður kaupir af öðrum eitthvað sem hann vill í rauninni ekki veita, þ.e. kynlíf. Eitthvað sem ætti að vera bundið við tilfinningabönd og ást. Um leið og kynlíf er orðið söluvara er ein manneskja að hefja sig yfir aðra. 
Út með hvers kyns ójafnrétti. Út með lág laun, út með ölmusu, út með mansal, út með vændi. Inn með jafnrétti allra manna. Ég vil lifa í velferðarþjóðfélagi sem hugsar vel um alla sína þegna, hvort sem þeir geta unnið fyrir sér eða ekki. Og ég borga skatta með glöðu geði ef ég veit að skattarnir nýtast til að sem flestir geti lifað mannsæmandi lífi.

Arnfríður Kjartansdóttir skipar sæti á lista VG á Akureyri í sveitastjórnarkosningum 2018.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó