beint flug til Færeyja

,,Markmiðið að komast í úrslitakeppnina“

,,Markmiðið að komast í úrslitakeppnina“

Dominos deild karla í körfubolta hefst í kvöld og á morgun mæta Þórsarar til leiks þegar Stjarnan kemur í heimsókn í Íþróttahöllina.

Benedikt Guðmundsson er þjálfari Þórs líkt og í fyrra þegar hann kom liðinu upp úr 1.deild á sínu fyrsta ári í Þorpinu. Þórsurum er spáð ágætu gengi í vetur þrátt fyrir að vera nýliðar í deildinni. Benedikt segir undirbúninginn hafa gengið sæmilega.

,,Ég hef séð nokkrar spár og í þeim hefur okkur verið spáð þetta 6. til 10. sæti. Bæði liðin sem komu upp í fyrra féllu í vor þannig eins og þú segir þá ættum við að vera berjast um sæti í úrslitakeppninni miðað við þessar spár.  Undirbúningur hefur gengið sæmilega. Lykilmenn hafa komið seint inn og því erum við í seinna fallinu að púsla þessu saman. Við gerum okkur því grein fyrir að við erum kannski eitthvað á eftir liðunum fyrir sunnan sem eru búin að æfa saman lengur,“ segir Benedikt.

Þórsliðið bætti við sig þremur sterkum leikmönnum í sumar en missti í staðinn Drew Lehman og Elías Kristjánsson en sá fyrrnefndi var stigahæsti leikmaður liðsins í fyrra. Benedikt líst vel á hópinn sem hann hefur í höndunum.

Mynd: Sunnlenska

Benedikt hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari á þjálfaraferli sínum. Mynd: Sunnlenska

,,Þegar við verðum búnir að pússa liðið saman þá ættum við að verða flott lið sem getur keppt við hvaða lið sem er í deildinni. Við ætlum að selja okkur dýrt á móti bestu liðum landsins. Til þess að það takist þurfum við að búa til ákveðið viðhorf innan liðsins. Vörnin þarf að vera einn af styrkleikunum og hún snýst um ákveðið viðhorf. Við erum með marga sem geta skorað og ég er ánægður með hversu óeigingjarnir menn eru sóknarlega. Ég legg mikla áherslu á að það verði þannig í vetur. Það gæti orðið mikill styrkleiki fyrir okkur. Markmiðið er að komast í úrslitakeppnina. Þar er aðalfjörið og stefnan er að við séum að spila okkar besta bolta á þeim tímapunkti. Til þess að það gangi upp verðum við að vera heppnir með meiðsli og annað slíkt.“

,,Risavaxið verkefni strax í fyrsta leik“

Benedikt gerir sér grein fyrir því að verðugt verkefni bíði liðsins í fyrstu umferð þegar Hrafn Kristjánsson, fyrrum þjálfari Þórs, kemur með Stjörnuna í heimsókn.

,,Stjörnunni var spáð 1. sæti af forráðamönnum, leikmönnum og þjálfurum deildarinnar þannig að við fáum risavaxið verkefni strax í fyrsta leik Þórs í Dominosdeildinni. Það er bara gaman. Það þurfa allir að eiga topp leik á föstudaginn til að leggja Stjörnuna sem er með ógnarsterkt lið í ár, með Hlyn Bæringsson í broddi fylkingar,“ segir Benedikt sem reiknar með að Stjarnan verði að berjast um titilinn í vetur.

,,Mér sýnist að það séu fjögur lið sem teljast sterkust í deildinni (KR, Stjarnan, Tindastóll og Þór Þorlákshöfn). Ég hef ekki séð mikið af hinum liðunum á undirbúningstímabilinu þannig að það er erfitt fyrir mig að meta liðin. Þegar KR verður komið með fullt lið þá eru þeir ansi líklegir að vinna mótið en Stjarnan hefur alla burði til að gera eitthvað þetta tímabilið. Stólarnir eru líka harðir á því að þeirra tími sé kominn en þetta skýrist allt saman í vetur,“ segir Benedikt.

Það vakti töluverða athygli í körfuboltaheiminum þegar Benedikt ákvað að koma til Akureyrar og þjálfa Þór sem hafði verið í mikilli lægð. Það er óhætt að segja að Benedikt hafi rifið liðið upp í nýjar hæðir en hvað var hann að spá þegar hann ákvað að koma norður?

,,Ég sá fyrir mér mjög áhugaverða áskorun sem ég ákvað að stökkva á. Ég sá möguleika hérna á Akureyri til að gera flotta hluti og er að vinna í því alla daga með fullt af fólki. Þar fyrir utan er erfitt að segja nei við vin minn Ágúst Herbert Guðmundsson þegar hann ræðir við mann í föðurlegum tón.“

dominosdeildin_stort-copy-1

Veislan er að byrja!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó