Mattías úr Hatara, Jón Gnarr og Lóa Hlín á LÝSU

Mattías úr Hatara, Jón Gnarr og Lóa Hlín á LÝSU

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins fer fram í Hofi á Akureyri 6. og 7. september. LÝSA er upplýsandi hátíð þar sem málefni samfélagsins eru í fyrirrúmi. Á hátíðinni mætast almenningur, atvinnulífið, félög og stjórnvöld.

Á hátíðina kemur fólk til að taka þátt í þeim fjölmörgu umræðuefnum sem eru á dagskrá sem tengjast meðal annars atvinnu og vinnumarkaði, heilbrigði og lýðheilsu, jafnrétti, menningu og listum, stjórnmálum, vísindarannsóknum, umhverfismálum og menntun. 

Skemmtidagskrá hátíðarinnar verður ekki af lakari endanum. Fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir spjallar við Jón Gnarr, Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur, Hörpu Þórsdóttur og Matthías Tryggva Haraldsson um samspil lista, andófs og stjórnmála. Einnig mun Snjólaug Lúðvíksdóttir vera með uppistand og Jón Ólafsson og Stefán Hilmarsson taka spjall og flytja nokkur lög. Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason fær svo gesti í sófann og spjallar við þá um umdeild málefni.

Markmið LÝSU – Rokkhátíð samtalsins er að efla samtalið um samfélagið, hvetja til upplýstrar umræðu og þannig skapa meira traust og skilning milli ólíkra aðila.

Fjölmörg félög og samtök standa fyrir viðburðum og uppákomum á hátíðinni, eins og málstofum, smiðjum, kynningum og sófaspjalli. Þá verður til staðar umræðutorg þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að leita upplýsinga og spjalla við fulltrúa hinna ýmsu félagasamtaka. Það verður því fjölbreytt og spennandi dagskrá þessa tvo daga. Hátíðin er almenningi að kostnaðarlausu

Sambíó

UMMÆLI