MBS skífur og hljómsveitin Á geigsgötum safna fyrir vínyl útgáfu

MBS skífur og hljómsveitin Á geigsgötum safna fyrir vínyl útgáfu

Nú stendur yfir söfnun á Karolina Fund þar sem MBS skífur og hljómsveitin Á geigsgötum safna fyrir vínyl útgáfu af plötunni Draumar hverfa skjótt sem kom út á stafrænu formi fyrsta vetrardag 2020. Hægt er að heita á verkefnið í gegnum vefsíðuna Karolina Fund og hljóta umbun fyrir t.d. vínylplötu, þrykk, niðurhalskóða, afslímun (aflátsbréf) og margt fleira. Þar að auki er hægt að fá umbun er snertir tónlistarhátíðina Opinn dagur í Gúlaginu sem haldin verður í fjórða skiptið 2021 og gerast m.a. opinber styrktaraðili hátíðarinnar. 

MBS skífur 

MBS skífur eða Mannfólkið breytist í slím skífur er samstarfsverkefni nokkra tónlistarmanna sem upphaflega fóru að vinna saman í æfingahúsnæði á Akureyri og hafa allt frá árinu 2010 gefið út tónlist undir sameiginlegum merkjum. Samstarfið hefur einkennst af bróðerni og óhagnaðardrifinni vinnu í þágu tónlistarsköpunar, en á þeim 10 árum sem MBS hefur starfað hafa komið út 15 stafrænar plötur. Auk þess að standa í plötuútgáfu hefur MBS haldið tónlistarhátíðina Opinn dagur í Gúlaginu síðan 2018 en hún er kennd við æfingahúsnæði samsteypunnar. Leitast er við að fá sem flesta unga listamenn frá Norðurlandi til að koma fram og sýna rjóma tónlistarsenunnar norðan heiða í bland við það besta í grasrótarsenu landsins alls.

Á geigsgötum

Á geigsgötum var upphaflega sóló-verkefni Inga Jóhanns Friðjónssonar, stofnað um 2010, sem þróaðist með tímanum yfir í hljómsveit og varð að lokum stúdíó-verkefni. Að verkefninu koma listamenn sem eiga það sameiginlegt að hafa verið viðloðandi akureyrskt tónlistarlíf á einn eða annan hátt.

Draumar hverfa skjótt er fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar, hún var tekin upp á árunum 2015-2020 en lögin voru samin 2010-2015. Hljómsveitina skipa í grunninn Ingi Jóhann Friðjónsson, Jón Arnar Kristjánsson, Stefán Bessason og Þórir Óskar Björnsson. Að plötunni komu einnig: Benedikt Natanael Bjarnason, sem söng bakraddir í laginu  „Rýkur úr“, Hreggviður Huldu Harðarson spilaði á hljóðgervil í lögunum „Rýkur úr“ og „Draumadöf“. Hreggviður sá einnig um upptökur sem og Þorsteinn Kári Guðmundsson sem spilaði einnig á ýmis hljóðfæri og sá um hljóðblöndun.

Draumar hverfa skjótt er afar kraftmikil og tónlistin tregafull og þokukennd á köflum en nær að takast á við þung hugðarefni höfundar af mikilli hreinskilni og æðruleysi. Tónsmíðarnar eru innblásnar af skammdeginu og þannig sérstaklega sniðnar að næstu mánuðum vetrar. Mikið púður hefur verið sett í vinnslu plötunnar og hún stendur höfundum afar nærri og því teljum þeir að hún eigi skilið efnislega útgáfu við hæfi.

Karolina Fund: https://www.karolinafund.com/project/view/3191

UMMÆLI