„Með því að hugsa jákvætt og líta á björtu hliðarnar þá getur maður tekist á við ýmislegt“

„Með því að hugsa jákvætt og líta á björtu hliðarnar þá getur maður tekist á við ýmislegt“

Akureyringurinn Silja Björk Björnsdóttir, baráttukona í umræðu um geðsjúkdóma, segir mikilvægt að hugsa um andlega heilsu á tímum kórónaveirunnar. Hún hefur boðið upp á stafrænar samverustundir á samfélagsmiðlum sínum þar sem hún ræðir andlega heilsu.

„Mér finnst alltaf nauðsynlegt að tala um andlega heilsu, hvort sem það er núna á tímum heimsfaraldurs eða bara á venjulegum mánudegi. Mér fannst svo margir vera byrjaðir að tala um hvernig á að halda sér í líkamlegu formi á þessum tímum og ég skildi ekki af hverju fleiri voru ekki að tala um hversu mikilvægt það er að halda líka í andlegu heilsuna. Jafnvel mikilvægara,“ segir Silja í samtali við Kaffið.

Hún segir að hún hafi ákveðið að byrja með samverustundirnar bæði til þess að hafa sjálf eitthvað að gera og til þes sað veita öðrum andlegan stuðning.

„Í fyrstu samverustundinni talaði ég um þakklæti og hvað það er mikilvægt að sýna þakklæti, nú sem áður. Fólk þarf að vera þakklátt fyrir það sem við höfum í stað þess að einblína á það sem við höfum ekki. Málið er að við höldum að heilinn sé mjög flókið fyrirbæri en þegar öllu er á botninn hvolft er ansi auðvelt að endurforrita heilann og bara með því að hugsa jákvætt og líta á björtu hliðarnar þá getur maður tekist á við ýmislegt. Það er líka mikilvægt að sýna litlu hlutunum þakklæti, eins og góðum kaffibolla eða skemmtilegri bók. Auðvitað er engin töfralausn við geðrænum sjúkdómum en þegar kemur að því að rækta andlega heilsu er gott að vera jákvæður.“

Í næstu samverutund sem var í gær talaði Silja um skipulag og rútínu og hversu gott það er að missa ekki taktinn þó allt í kringum mann breytist.

„Andleg heilsa reiðir sig mjög mikið á rútínu og það sem er rútína fyrir einum er kannski algjört óskipulag fyrir öðrum þannig ég var að benda fólki á góð ráð til þess að halda eigin rútínu og eigin skipulagi, og talaði aðeins um hvernig ég held utan um skipulagið mitt.“

Silja verður með aðra samkomustund í hádeginu á morgun, 22. mars. Þá mun hún ræða heiðarleika og samskipti. Hún stefnir á að halda samkomustund sirka annan hvern dag á meðan samkomubanni stendur.

Upptökur af samkomustundunum fara svo inn á Facebook, á GEÐSJÚK hópinn á Facebook.

„Svo mæli ég með að fólk skoði Samstaða á tímum COVID19 á Facebook og Hjálpum fólki í áhættuhóp (Kóróna/Covid19),“ segir Silja að lokum. Hægt er að fylgjast með Silju á Instagram með því að smella hér.


Sambíó

UMMÆLI

Sambíó