Menntamálaráðherra og Rúv allra landsmanna

Komið þið sæl ég heiti Eymundur og er 50 ára gamall Akureyringur. Mig langar að deila því með ykkur að ég náði að eignast gott líf þrátt fyrir að þjást af félagsfælni mest allt mitt líf án þess að vita hvað félagsfælni var.

Hvað er félagsfælni? Félagsfælni er geðröskun sem byrjar oftast kringum 10 til 15 ára aldur. Félagsfælni getur haft miklar afleiðingar ef ekkert er gert strax í æsku. Félagsfælni getur leitt til vímuefnamisnotkun, alkóhólisma og þunglyndis. Félagsfælni er mikill feluleikur og margir þora ekki að leita sér hjálpar vegna hræðslu við stimplun frá nærumhverfi. Svo það er spurning af hverju ég er að skrifa um og fer í viðtöl út af minni félagsfælni?

Ég sem var svo hræddur og óttaðist fordóma og lifði frekar í myrkrinu og lék trúðinn til að fela mína vanlíðan. Ég skrifa og fer í viðtöl vegna þess að ég veit hvað félagsfælni rænir miklu sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef ég væri 12 ára í dag. Ég með mína félagsfælni hef nefnilega öðlast líf og frelsi eftir að ég fékk hjálp 2005. Ég hef talað um félagsfælni til að hjálpa öðrum og auka þekkingu sem var ekki til áður.

Ég hef verið með geðfræðslu um mína félagsfælni í mörg ár fyrir ungmenni og starfsfólk í grunn- og framhaldsskólum landsins. Ég hef talað um mína félagsfælni fyrir samfélög og foreldra barna í grunnskólum landsins.

Ég hef talað á málþingum um félagsfælni til gefa fólki innsýn í veruleika fólks með félagsfælni. Félagsfælni er nefnilega ekki sama og áunnin félagsfælni þar sem fólk er fljótt að ná sér á strik eftir að hafa fengið hjálp. Félagsfælni er einmannaleiki dauðans ef ekkert er að gert og mikilvægt að fá réttu hjálpina strax í æsku.

Ég hefði viljað fá hjálp strax í æsku við minni félagsfælni svo ég þyrfti ekki að flýja lífið með forðunarhegðun, þunglyndi, vímuefnamisnotkun og einangrun. Félagsfælni er 3 þriðja algengasta geðröskunin á eftir þunglyndi og alkóhólisma og þarf meiri umfjöllun til að hjálpa ungu fólki sem fjölskyldum.

Kvíði

Ég er að byrja í grunnskóla í fyrsta bekk sem ætti að vera mikið tilhlökkunarefni. En nei ég hlakka ekki til að hitta aðra, mér líður illa og ég veit ekki af hverju.Ég byrja samt í skólanum, á erfitt með að læra og fer í sérkennslu í lestri. Ég á erfitt með að einbeita mér og kvíði fyrir að standa upp fyrir framan bekkinn og tala. Sem betur fer er ég þokkalegur í íþróttum og féll þar í hópinn en lærdómur situr á hakanum af því að mér líður svo illa í skólanum

Félagsfælni og skert lífsgæði

Árin líða. Ég er tólf ára og kvíðinn er orðinn að mikilli fælni. Ég kvíði líka fyrir að mæta á æfingar eða spila leiki. Ég þori ekki að tala um mína líðan því ég er hræddur um að lítið yrði gert úr henni. Líðanin er svo ömurleg að sem lýsir sér að mig langar að deyja á hverjum degi. Maður er reiður yfir því hvernig manni líður og svarar öðrum með reiði sem ég sá svo eftir en það var ein af mínum vörnum. Herbergið er minn besti vinur. Ég veit ekki af hverju ég roðna, klökkna, hef litla einbeitingu, brotthætt taugakerfi, brotna sjálfsmynd og lítið sjálfstraust eða sjálfsvirðingu Ég var viss um allir skömmuðust sín fyrir mig og leið líka illa innan um fjölskylduna.

Ég leyfi öðrum að gera grín að mér og tek þátt í því sem trúður svo enginn geti séð hvernig mér líður. Ég skammast mín fyrir sjálfan mig. Ég leit út fyrir að fúnkera félagslega, en eftir að ég varð fimmtán sextán ára fór ég aldrei með félögum í bíó eða neitt svoleiðis. Ég þorði aldrei að fara og þorði aldrei að segja þeim af hverju það var. Ég vissi heldur í rauninni ekki hvað var að mér. Ég prófaði framhaldsskóla en entist í 2 mánuði þar sem ég gat ekki verið innan um aðra. Þannig að ég fór að vinna og var á sama vinnustað í 20 ár. Hættur að fara í fjölskylduboð og var bara með afsakanir og leið ömurlega að geta ekki farið.

Ég leitaði í áfengi til að deyfa mig eða drekka í mig kjark sem ég mæli ekki með en það er flótti frá raunveruleikanum.

Samt var ég alltaf virkur í íþróttum. Margir eiga mjög erfitt með að skilja það. Ég var meira að segja í félagsíþrótt, spilaði fótbolta með Þór og Magna Grenivík. En það varð það eina sem ég hafði og var þokkalegur í en leið samt ömurlega. Ég spilaði með Þór Akureyri í fótbolta upp allra yngri flokka. En þegar kom í meistaraflokk fór ég frekar í Magna Grenivík þar sem það var minna félag.

Ég þurfti svo að hætta að spila 1994 þá orðinn 27 ára gamall þar sem ég greinist með bein í bein í mjaðmaliðnum. Ég grenjaði mig í svefn í 4 ár útaf mínum verkjum og félagsfælni. Ég þorði ekki að hætta í minni erfisvinnu á lyftara og miklum burði út af minni félagsfælni. Mér var boðið léttari vinna á helmingi hærri launum en þorði ekki út af minni félagsfælni.

1998 þurfti ég að fara í mjaðmaliðaskiptingu og fór svo að vinna sömu vinnu. Það varð til þess að ég þurfti aftur í aðgerð sömu megin árið 2004. Aðgerðin heppnaðist ekki nóg vel en það má segja að það hafi bjargað mínu lífi og því get ég talað opinskátt um mína félagsfælni. Nefnilega í byrjun árs 2005 býðst mér að fara á verkjasvið í 6 vikur á Kristnesi, þar sem ég fer í fræðslu um kvíða, félagsfælni og þunglyndi. Þarna skildi ég vanlíðanina sem ég hafði borið með mér öll þessi ár. Það voru ástæður fyrir minni vanlíðan eins og við öðrum veikindum.

Ég sá líka að hægt var að fá hjálp eins og aðrir fá hjálp við öðrum veikindum. Ég þurfti ekki að skammast mín fyrir að vera til og gat eignast líf með að fá hjálp. Hjálp sem ég var búinn að þrá frá barnsaldri og því er ég þakklátur að geta talað um mína félagsfælni til að hjálpa öðrum að skilja og auka þekkingu á félagsfælni.

Ég hef verið opinn fyrir hjálpinni sem hefur fært mér lífsgæði án þess að kvíða hverjum degi. Frábært fagfólk á mörgum stofnunum og fólk með reynslu af geðröskun í Hugarafli og Grófinni geðverndarmiðstöð á Akureyri hafa rofið minn einmannaleika og skert lífsgæði. Ég er þátttakandi í lífinu, tengist fólki, fer í skóla og hef öðlast sjálfstraust til að takast á við lífið. Ég er menntaður ráðgjafi úr Ráðgjafaskóla Íslands og félagsliði í dag. Ég sem entist í 2 mánuði framhaldsskóla eins og áður segir. Ég var að koma úr minni 3 mjaðmarliðaskiptingu sömu megin og glími við verki og síþreytu en það er ekkert miðað við mína félagsfælni gegnum lífið. Vonandi hef ég gefið ykkur innsýn í hvað félagsfælni er og afleiðingar og mikilvægi þess að ungmenni fá hjálp strax í æsku.

Menntamálaráðherra árið er 2018

Hættum þessum feluleik og förum að byggja upp börn og ungmenni af alvöru í grunn- og framhaldsskólum landsins. Breytum lífsleikni og fáum fagmenn sem eru menntaðir til að kenna hugræna atferlismeðferð í grunn- og framhaldsskóla landsins. Eflum forvarnir í skólum og samfélaginu með fagmanneskjum af geðröskun og fagmönnum. Menntamálaráðherra og Rúv allra landsmanna ég kalla líka eftir meiri forvörnum frá ykkur! Þið hafið völd og þau völd eiga að geta hjálpað til við að auka þekkingu, viðurkenningu og virðingu fyrir nútíð og framtíð! Fortíðin á það skilið nóg hefur fólk misst á sinni lífstíð og sumir ekki lifað af! Í stað þess að vera taka á afleiðingum eigum við að byggja upp verðmæti sem felst í öllum börnum. Stórasta land í heimi sagði Dorrit!

Takk fyrir mig.

Sambíó

UMMÆLI