„Mér er fokking drullusama“

Leikhópurinn og höfundarnir á æfingu í Gryfjunni. Mynd:vma.is


„Mér er fokking drullusama“
er heiti á nýjum einþáttungi sem Pétur Guðjónsson viðburðastjóri VMA og Jóhanna G. Birnudóttir – Jokka hafa skrifað í saminingu. Þátturinn verður frumsýndur í Gryfjunni í VMA þann 10. febrúar nk. og sýndur til 15. febrúar. Fjórir leikarar eru í sýningunni og eru þeir allir nemendur í VMA. Frá þessu er greint á vef VMA í dag.

Einþáttungurinn fjallar um framhaldsskólanemandann Svein sem er í óreglu, ofbeldishneigður og lendir tíðum upp á kant við kennara sína. Brugðið er upp svipmynd af augnbliki í lífi Sveins þegar hann lendir í baráttu við sína innri rödd, djöfulinn og samviskuna.

Pétur Guðjónsson, annar tveggja höfunda leikritsins og leikstjóri, segir að hann og Jokka hafi skrifað það í byrjun síðasta árs og lokið þeirri vinnu í maí sl. Þau eru ekki óvön að vinna saman því til þessa hafa þau skrifað þrjú sviðsverk auk handrits af stuttmynd, sem nú er í vinnslu.

Leikarar í einþáttungnum eru Sindri Snær Konráðsson, Steinar Logi Stefánsson, Ragnheiður Diljá Káradóttir og Jara Sól Ingimarsdóttir. Haukur Sindri Karlsson skapar hljóðmynd sýningarinnar á flygilinn í Gryfjunni, Stefán Jón Pétursson hannar lýsingu og Hrefna Björnsdóttir sér um búningahönnun og förðun.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó