Prenthaus

Miðaldaminjar finnast í Grímsey

Miðaldaminjar finnast í Grímsey

Nú er unnið að undirbúningi kirkjubyggingar í Grímsey en smíði hennar mun hefjast á næstu dögum. Hluti af undirbúningi kirkjubyggingar var fólginn í fornleifarannsóknum sem Minjastofnun Íslands fór fram á að gerðar áður en framkvæmdir hæfust. Fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands hafa því verið við rannsóknir í eyjunni í rúmlega viku.

Í þeim hafa komið í ljós ýmsar áhugaverðar minjar. Komið var niður á það sem talið er líklegur kirkjugarðsveggur suðvestarlega í kirkjustæðinu. Kirkjugarðsveggurinn bar þess merki að hafa verið viðhaldið um aldaskeið og er að líkindum í grunninn frá miðöldum eða fyrr. Innan kirkjugarðs sást einnig móta fyrir talsverðum fjölda af gröfum. Í kjölfar þessa fundar var ákveðið að hnika kirkjubyggunni eilítið til þannig að ný kirkja stæði utan þessa gamla kirkjugarðs og komast þannig hjá raski á honum.

Í stæði kirkunnar fannst einnig mikill öskuhaugur. Yngstu lög hans eru líklega frá 18.-19. öld en einnig fannst talsvert magn af eldri öskuhaugi sem gæti verið frá miðöldum. Öskuhaugar geyma gjarnan ómetanlegar upplýsingar um mataræði og lífsskilyrði á fyrri öldum og er vonast til að greining á beinum og gripum úr haugnum geti veitt mikilvægar upplýsingar um sögu eyjarinnar en þetta er í fyrsta sinn sem fornleifauppgröftur fer fram í Grímsey.

Nánar má fræðast um uppbyggingu kirkjunnar á grimsey.is/kirkja

UMMÆLI