Miðjan slær í gegn á samfélagsmiðlum

Gísli Máni og Gunnar Björn sjá um Miðjuna

Tveir ungir strákar frá Akureyri hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum undanfarið. Þetta eru þeir Gísli Máni Rósuson og Gunnar Björn Gunnarsson sem sjá saman um Miðjuna. Gísli og Gunnar eru fæddir árið 1997 og eru nýútskrifaðir frá Menntaskólanum á Akureyri þar sem þeir kynntust. Miðjan gefur út skemmti- og afþreyingarefni á samfélagsmiðlunum Facebook, Snapchat, og Instagram.

Miðjan varð til í framhaldsskólakeppninni So You Think You Can Snap sem var haldin af samfélagsmiðlamerkinu Áttan. Gísli og Gunnar kepptu í úrslitum keppninnar fyrir hönd MA eftir að upprunalegi keppandinn dróg sig úr keppni. „Áður en við stofnuðum Miðjuna vorum við oft að leika okkur að búa til allskonar myndbönd, bæði á Snapchat og Musical.ly. Við stóðum okkurprýðilega í So You Think You Can Snap en sá sem var að keppa fyrir hönd MA gat ekki lengur tekið þátt, þá bauðst okkur tækifærið að hlaupa í skarðið. Í lok keppninnar bauð Áttan okkur starfssamning, það var í raun og veru þá sem Miðjan byrjaði,“ segir Gísli Máni í spjalli við Kaffið.

Nýlega stofnuðu strákarnir Facebook síðu fyrir Miðjuna en þeir segja að þar megi búast við allskonar skemmtilegu efni í sumar. „Markmiðið er að setja tvö til þrjú myndbönd þar inn í hverri viku. Einnig erum við mjög virkir á Snapchat og reynum að setja eitthvað þar inn á hverjum degi, síðan hendum við í eina og eina Instagram mynd við góð tækifæri.“

Miðjan starfar í samstarfi við Áttuna sem er líklega vinsælasta samfélagsmiðlamerki Íslands. Áttan rekur útvarpsstöð ásamt því að gefa út efni á samfélagsmiðlum líkt og Miðjan. Áttan hefur það að leiðarljósi að koma ungu fólki á framfæri og sjá t.d. um sölumál og markaðssetningu þeirra sem þeir koma á framfæri. Gísli segir að Áttan hafi veitt Miðjunni gríðarlegan stuðning við að byggja upp þeirra miðil. „Þau eiga stóran þátt í því að við erum á þeim stað sem við erum í dag.“

Miðjan er með 7500 fylgjendur á Snapchat og 4300 á Instagram. Facebook síðan þeirra er strax komin með rúmlega 2700 fylgjendur en hún var stofnuð 16. júní síðastliðinn. „Við notum Snapchat langmest, það er þægilegt og auðvelt að setja mikið efni þar inn án fyrirhafnar.“  „Við gerðum auglýsingu fyrir Keiluhöllina Egilshöll í apríl og hún er komin með 55.000 áhorf á facebook. Það er langt um vinsælasta myndbandið okkar hingað til.“ 

Hægt er að fylgjast með Miðjunni á Facebook síðu þeirra hér, eða bæta við midjan_official á Snapchat eða Instagram.

 

 

 

 

Sambíó

UMMÆLI