Alls 234 börn hafa fæðst á Sjúkrahúsinu á Akureyri það sem af er árinu. Það eru 56 fleiri börn en á sama tíma og í fyrra en Ingibjörg Jónsdóttir, yfirljósmóðir, segir aukinguna vera rúmlega 30 prósent frá síðasta ári. Þetta kemur fram á vef RÚV í dag.
Ingibjörg segir í samtali við RÚV að hún eigi von á mörgum fæðingum til viðbótar það sem eftir lifi sumars og fram á haust. Hún segir erfitt að finna skýringu á þessu en hún segir að 9 mánuðum eftir fyrstu bylgju kórónuveirunnar hafi fæðingum fjölgað og aftur eftir aðra bylgju faraldursins.
Ljósmæður á Akureyri hafa samþykkt að breyta sumarfríum sínum og bætt á sig aukavöktum. Þrátt fyrir það eru færri á vöktum en oft áður og mikið álag er á þeim sem eru á vaktinni. Dæmi eru um að ljósmæður frá Reykjavík sem hafa verið í sumarfríi á Akureyri hafi tekið vaktir á sjúkrahúsinu.
UMMÆLI