Mikil fjölgun í Vinnuskóla Akureyrar

Mikil fjölgun í Vinnuskóla Akureyrar

696 ungmenni sóttu um í Vinnuskóla Akureyrar í sumar sem er fjölgun um ríflega 50% frá 2019. Mest er aukningin meðal 17 ára umsækjenda, eða 126 umsóknir samanborið við 38 í fyrra. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Þar kemur fram að bæjarráð samþykkti á fimmtudag tímafjölda hjá starfsfólki Vinnuskólans. 14 ára börnum (fædd 2006) stendur til boða 105 klukkustundir í sumar en 15 ára geta unnið í 120 tíma. 16 ára eiga kost á 140 tíma vinnu en elsta árganginum, 17 ára, stendur til boða 200 klukkustunda vinna í sumar.

Styttri vinnulotur en lengri tímabil

Vegna stóraukinnar þátttöku, og til þess að tryggja öllum vinnu, hefur þurft að endurskoða fyrirkomulagið og í sumum tilvikum fækka tímum frá í fyrra. Á hinn bóginn er mikilvægt að halda ungmennum í virkni og því hefur verið ákveðið, að höfðu samráði við forvarna- og félagsmálafulltrúa bæjarins, að stytta vinnuloturnar en lengja vinnutímabilið yfir sumarið.

Fyrirkomulagið verður svona:

14 og 15 ára

  • Vinnutímabilið hjá 14 og 15 ára er 8. júní-12. ágúst
  • 14 ára: Vinna 3,5 klst. á dag fjóra daga í viku (mánudag til fimmtudags).
  • 15 ára: Vinna 3,5 klst. á dag fjóra daga í viku (mánudag til fimmtudags).

16 og 17 ára

  • Skipt í tvö vinnutímabil. Fyrra tímabilið er 8. júní-27. júlí og seinna er 6. júlí-21. ágúst
  • 16 ára: Vinna 5 klst. á dag fjóra daga í viku (mánudag til fimmtudags).
  • 17 ára: Vinna 6 klst. á dag fimm daga í viku (mánudag til föstudags).

Hér eru nánari upplýsingar um Vinnuskólann. 

Ungu fólki tryggð sumarvinna með átaki

Ríflega 400 umsóknir hafa borist frá hátt í 200 ungmennum um atvinnuátaksverkefni á Akureyri, bæði um störf í sérstöku átaki á vegum sveitarfélagsins og átaki í samvinnu við Vinnumálastofnun.

Akureyrarbær fékk heimild til að ráða í 100 störf í tvo mánuði í atvinnuátaki Vinnumálastofnunar fyrir 18 ára og eldri. 121 sótti um fjölbreytt sumarstörf hjá stofnunum, söfnum eða félögum á Akureyri og er nú unnið að því að klára ráðningar.

Frestur til að sækja um í sérstakt atvinnuátak Akureyrarbæjar fyrir 18-25 ára rann út sunnudaginn 31. maí. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að tímafjöldi verði sami og undanfarin ár eða 175 tímar á hvern starfsmann.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó